Beint í efni

Bændasamtökin gagnrýna vinnubrögð stjórnvalda í ESB-málinu

22.05.2012

Íslensk stjórnvöld hafa skilað drögum að áætlun um innleiðingu landbúnaðarkafla Evrópusambandsins með það að markmiði að hægt verði að opna viðræður um kaflann. Vekur nokkra athygli að svo skuli vera í ljósi þess að ekki hefur enn verið mótuð samningsafstaða í landbúnaðarmálum.

Bændasamtök Íslands mótmæla því hvernig stjórnvöld hafa staðið að málum og telja að með þeirri framgöngu sé verið að veikja málstað Íslands í viðræðunum alvarlega og varanlega.

Í byrjun apríl sl. funduðu fulltrúar Bændasamtakanna með þingmönnum frá ESB, fulltrúum í svæðanefnd sambandsins og staðgengli yfirmanns stækkunardeildar sambandsins þegar kemur að Íslandi, Franz Cermak. Í þeim viðræðum kom fram að íslensk stjórnvöld hefðu þegar skilað drögum að viðbrögðum sínum við skilyrðum ESB fyrir að opna landbúnaðarkaflann. Ekkert samráð var haft við samningahóp Íslands um landbúnað þegar vinna við þessi viðbrögð fór fram. Athygli vekur líka að þá hafði ekki verið fundað í samningahópi um landbúnaðarmál frá því í nóvember á síðasta ári.

Í bókun stjórnar Bændasamtakanna frá fundi sínum 16. maí sl. kemur fram að þessum vinnubrögðum sé mótmælt enda hljóti aðildarríki ESB að meta það sem svo að verið sé að lofa því að Ísland taki upp sameiginlega landbúnaðarstefnu sambandsins án skilyrða. Þannig hljóði texti viðbragðanna. Fram kom einnig að íslensk stjórnvöld hafa fullt samráð og samvinnu við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um efni áætluninnar og því ljóst að stjórnvöld álíta að þetta sé vettvangur til að „slétta yfir“ ágreining um hagsmuni Íslands fremur en að afla þess skilnings strax hjá aðildarríkjum ESB að Ísland hefur sérstöðu í þeim grundvallaratriðum sem hafa verður í huga við aðildarsamning, líkt og rakið er í varnarlínum BÍ og greinargerð með þeim.

Bréf hefur þegar verið sent til Sigurgeirs Þorgeirssonar, ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, en hann er formaður samningahóps um landbúnaðarmál. Þar er m.a. spurt hvaða skuldbindingar felist í þeim fyrirheitum sem gefin eru um aðgerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda í skýrslunni ásamt fleiru.

Sjá:
Bréf frá BÍ til ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Efni: Opnunarviðmið ESB - drög að skýrslu - pdf