
Bændasamtökin fordæma vanrækslu og illa meðferð dýra
28.10.2022
Í ljósi þess að Matvælastofnun framkvæmdi fyrr í mánuðinum vörslusviptingu á hrossum á Vesturlandi vilja Bændasamtök Íslands koma eftirfarandi á framfæri.
Nokkra furðu vekur hvernig málið þróaðist og hver endalok þess urðu þar sem fella þurfti stóran hluta hrossahópsins eftir að hópurinn hafði verið á beit í nokkurn tíma. Bændasamtök Íslands hafa þó ekki yfir að ráða neinum þeim upplýsingum um málið sem geta upplýst nákvæmlega hvað þarna fór fram, annað en það sem birt hefur verið í fjölmiðlum.
Hinsvegar geta samtökin upplýst að á fundi með Ríkisendurskoðun fyrr í vikunni lýstu forsvarsmenn samtakanna yfir áhyggjum af ferli málsins. Bændasamtök Íslands reifuðu ýmsar leiðir sem samtökin telja færar til að treysta ferli slíkra mála. Helstu athugasemdir samtakanna snúa að því að MAST séu tryggðar nægilegar fjárheimildir og eðlilegar valdheimildir og aðstaða til að halda gripi sé til staðar til að hægt sé að stíga inn í aðstæður sem þessar og færa gripi í umhverfi þar sem þeir eru óhultir og þeim sinnt.
Í tengslum við þetta tiltekna mál hefur komið fram hjá utanaðkomandi aðilum að lögregla hafi verið kölluð til en ábending ekki verið send MAST í framhaldinu. Ef rétt reynist er slíkt með öllu ótækt enda afar mikilvægt að boðleiðir séu skýrar innan eftirlitskerfisins.
MAST gegnir lykilhlutverki í eftirliti með búfjárhaldi og því mikilvægt að stofnunin hafi nægilegt fjármagn og mannafla til að sinna því hlutverki sínu auk þess sem fræðsla og leiðbeiningar eru stór þáttur í eftirliti sem sinna verður samhliða. Að lokum skal það áréttað að Bændasamtök Íslands fordæma hvers kyns illa meðferð á dýrum, vanrækslu og slæman aðbúnað.