Beint í efni

Bændasamtök Íslands senda bændum og öðrum íbúum á áhrifasvæði goss í Eyjafjallajökli kveðjur og samstöðu íslenskra bænda

27.04.2010

Bændasamtökin þakka fjölmörgum sem sýnt hafa bændum stuðning í hug og verki undanfarna sólarhringa. Sérstakar þakkir eru færðar til samtaka bænda í nágrannalöndum okkar og raunar um allan heim. En atburðir vekja til umhugsunar mikilvægi á starfi bænda, velferð dýra og matarframleiðslu. Íslendingar sýna innlendri matvælaframleiðslu mikinn skilning og meta bændur það mikils og vilja rækja það hlutverk, sem er besti stuðningurinn til lengri tíma.

Bændasamtökin fagna frumkvæði stjórnvalda og skýrum vilja þeirra til að standa með íbúum í kjölfar hamfaranna.

Búnaðarsamband Suðurlands hefur af krafti brugðist við og mun áfram leiða faglega ráðgjöf og aðstoð við bændur á svæðinu.

Stjórn BÍ telur nauðsynlegt að eftirfarandi sé haft í huga og beinir tilmælum þar að lútandi til stjórnvalda:

• Sem fyrst þarf að endurbæta laskaða og skemmda varnar- og flóðgarða. Þá þarf að fara yfir og endurmeta gerð slíkra mannvirkja til varnar byggðum og bæjum.

• Viðbragðshópur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þarf að taka föstum tökum úrlausn mála sem upp kunna að koma, t.d. hagagöngu sauðfjár á komandi sumri.

• Stjórnvöld þurfa nú þegar að viðurkenna að kostnaður verður vegna hreinsunarstarfs og fjölmargra annarra þátta.

• Stjórnvöld verða að skipa þegar til starfa umsjónarmann, sem starfar með sveitarstjórnum og öðrum heimaaðilum að uppbyggingarmálum. Af slíku starfi er mikil reynsla, m.a. eftir Suðurlandsskjálfta og hamfara á Vestfjörðum.

• Viðurkenna þarf að margskonar atriði verða utan bóta- og tryggingasviðs hefðbundinna trygginga, Viðlagasjóðs og Bjargráðasjóðs.

• Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Bændasamtökin þurfa að leita sameiginlega leiða til að auðvelda bændum ákvarðanatöku um framhald búrekstrar. Þar kæmi m.a. til greina að aflétta tímabundið framleiðslu- og ásetningskvöð vegna beingreiðslna. Þannig gæfist ráðrúm og tækifæri til uppbyggingar og endurbóta, án þess að um algjört tekjutap yrði að ræða ef búskapur stöðvast eða dregst saman. Slíkt yrði ekki til útgjaldaauka fyrir ríkið.

• Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þarf með tilmælum til stjórnenda lánastofnana að horfa með biðlund til bænda á hamfarasvæðinu.

• Bjargráðsjóður þarf sem fyrst að geta beitt fyrirbyggjandi aðgerðum sínum til að forðast fóðurskort.

/Stjórn Bændasamtaka Íslands