
Bændageð komið í loftið
05.04.2023
Fjölmargir þættir hafa áhrif á heilsu fólks og full þörf er á að auka fræðslu og forvarnir um andlega og líkamlega heilsu þeirra sem starfa í landbúnaði. Langvarandi streita, heimsfaraldur, fordæmalausar aðfangahækkanir og versnandi afkoma hafa reynt mjög á bændur undanfarin ár.
Á bæði Búgreinaþingi og á Búnaðarþingi vorið 2022 voru atvinnutengdir sjúkdómar innan stéttarinnar til umræðu, m.a. kulnun og andleg veikindi. Í kjölfarið var samþykkt ályktun þar sem stjórn Bændasamtaka Íslands var hvött til að auka félagslegan stuðning og fræðslu um áhættuþætti í starfi bænda með það að markmiði að tryggja bændum aðgang að fræðslu og leiðbeiningum um forvarnir við andlegum sjúkdómum og viðbrögð við áföllum.
Í beinu framhaldi sóttu Bændasamtökin um styrk til félags- og vinnumarkaðsráðuneytið til þess að tryggja bændum aðgang að fræðslu og leiðbeiningum er varða áhættuþætti í starfi sem geta ýtt undir geðræn vandamál. Rannsóknir hafa sýnt fram á að bændur um allan heim eru útsettari en aðrar starfstéttir fyrir atvinnutengdum sjúkdómum bæði líkamlegum og andlegum.
Það var því mikið fagnaðarefni þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, veitti samtökunum fjármagn til þess að bæta forvarnir og viðbrögð við andlegum veikindum bænda. Stjórn og starfsfólk Bændasamtakanna telja mjög brýnt að vitundarvakning um þessi mál eigi sér stað meðal bænda og að þeir sem og aðstandendur hafi og þekki greiðar leiðir til sjálfsbjargar.
Í kjölfarið hefur verkefnið Bændageð hlotið styrk frá Landsbankanum, Geðhjálp, Sjóvá og Matvælaráðuneytinu og mega þessir aðilar hafa verðskuldaðar þakkir fyrir.
Bændageð er nú komið í loftið og er hægt að kynna sér verkefnið hér. Myndböndin sem voru tekin upp munu birtast á síðunni eitt af öðru samhliða umfjöllun Bændablaðsins. Félagsfólk í Bændasamtökunum hafa aðgengi að fræðslumyndböndunum á innri vef samtakanna með rafrænum skilríkjum
Í fyrsta myndbandinu tala Atli og Klara, bændur á Syðri Hofdölum, í Skagafirði meðal annars um riðu sem kom upp á bænum og áhrifum þess á fjölskylduna.
Bændasamtök Íslands vilja þakka þeim bændum og aðstandendum þeirra sem gæddu málefninu rödd og ógleymanlegar sögur kærlega fyrir að hjálpa okkur að láta þetta þarfa verkefni að verða að veruleika.