Beint í efni

Bændaflokkur í burðarliðnum?

04.04.2023

Í ræðu sinni á setningu Búnaðarþings í síðastliðinni viku fór Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, yfir það hvernig landbúnað hann vill sjá til framtíðar en yfirskrift þingsins var Landbúnaður framtíðarinnar. Þar benti Gunnar meðal annars á að starfsumhverfi landbúnaðar þurfi að einkennast af eðlilegri samkeppni innlendrar landbúnaðarframleiðslu við innflutning. Einnig kom formaðurinn inn á þau skilyrði sem þurfa að breytast til að meiri nýliðun verði í bændastéttinni ásamt því að hann áréttaði mikilvægi betri merkinga matvæla með samhentu átaki stjórnvalda, framleiðenda, verslunar, afurðastöðva og neytenda.

Stjórnvöld verða að sjá sóma sinn í að tryggja fyrirsjáanleika og skapa íslenskum landbúnaði sanngjörn og eðlileg starfsskilyrði að mati formannsins. En það sem vakti þó sennilega mesta athygli í ræðu Gunnars var þegar hann vitnaði í stórsigurvegara milliþingkosninga nýverið í Hollandi, bændaflokkinn BBB og nefndi í því samhengi hvort ekki væri réttast að þeir tæplega 2500 félagsmenn Bændasamtakanna ættu ekki að taka sig til og stofna sinn eigin stjórnmálaflokk, það er að segja, ef íslensk stjórnvöld hlusta ekki á raddir bænda. Hinn nýja flokk, Bændaflokkinn, myndi Gunnar vilja sjá fá listabókstafinn L og hvatti hann viðstadda því til að setja X við L.