Beint í efni

Bændaferð til Suður-Ameríku 2008

07.08.2007

Verið er að skipuleggja bændaferð til Suður-Ameríku í febrúar 2008. Að ferðinni standa Ferðaskrifstofa Vesturlands, Landssamband kúabænda og framkvæmdastjóri búrekstrarsviðs LBHÍ Snorri Sigurðsson, sem verður fararstjóri. Stefnt er að því að leggja upp um miðjan febrúar 2008. Suður-Ameríka er sá heimshluti þar sem vöxtur landbúnaðarins er hvað mestur um þessar mundir. Skera tvö lönd sig úr á því sviði, Argentína og Brasilía. Saman spanna þau yfir gríðarlegt landflæmi og veðurfar gerir það að verkum að hægt er að rækta svo að segja hvað sem er. Framleiðslumöguleikar þeirra eru því ótrúlega miklir.

Verið er að vinna að skipulagi ferðarinnar og er frekari tíðinda að vænta í næsta Bændablaði, sem kemur út í lok þessa mánaðar. Ein hugmynd sem fram hefur komið, er að haldið verði til Buenos Aires í Argentínu og ekið sem leið liggur til Sao Paulo í Brasilíu, þaðan sem flogið væri heim aftur. Sú leið liggur um víðlend landbúnaðarhéruð Argentínu, meðfram fljótinu Paraná en í því eru m.a. hinir viðfrægu Iguazu fossar á landamærum Argentínu og Brasilíu. Að auki eru fjölmargar náttúrperlur á svæðinu. Áhugasömum ferðalöngum er bent á að senda tölvupóst á fv@fv.is eða lk@naut.is