Beint í efni

Bændadagar í borginni – MYNDIR

25.11.2013

Bændasamtökin buðu bændum í heimsókn í Bændahöllina föstudaginn 15. nóvember síðastliðinn til þess að kynna sér starfsemina og gera sér glaðan dag í leiðinni. Leikurinn verður endurtekinn á föstudaginn kemur (29. nóv.) þar sem bændum gefst kostur á að koma á skrifstofur BÍ frá kl. 14:00 til 17:00.

Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, hélt tölu þar sem hann bauð fólk velkomið og hafði á orði að það væri mikilvægt að treysta böndin á milli starfsfólks samtakanna og bænda. Í kjölfarið fór Sindri yfir þau mál sem voru efst á baugi og því næst hélt hópurinn í stutta kynnisferð um húsið. Jón Baldur Lorange, sviðsstjóri tölvudeildar BÍ, fór yfir það helsta í hugbúnaðargerð samtakanna og Ólafur K. Ólafs hjá Lífeyrissjóði bænda gaf allar upplýsingar um stöðu lífeyrismála. Bændurnir fræddust um það hvernig Bændablaðið verður til og Erna Bjarnadóttir fór yfir þau fjölbreyttu verkefni sem samtökin sinna þegar kemur að því að gæta hagsmuna bænda.

Kristin Linda Jónsdóttir sálfræðingur hélt erindi niðri í fyrirlestrarsal Hótels Sögu þar sem hún fór yfir það hvernig hægt er að halda starfsánægjunni lifandi og jafnvægi á milli vinnu og fjölskyldulífs. Greinilegt var að fyrirlestur Kristínar Lindu vakti fólk til umhugsunar um það hvað gefur lífinu gildi.

Eftir tveggja tíma dagskrá var slegið á léttari strengi þegar Hótel Saga og Bændasamtökin buðu gestum upp á léttar veitingar á skrifstofum samtakanna á 3. hæð. Þar birtist svo enginn annar en Raggi Bjarna ásamt harmonikkuleikararnum þjóðkunna Þorgeiri Ástvaldssyni. Saman tóku þeir fjölda laga og ætlaði allt um koll að keyra þegar húsfreyjan í Belgsholti, Sigrún Sólmundardóttir, tók lagið með þeim félögum.

Um að gera að drífa sig í borgina!
Í tengslum við „Bændadaga í borginni“ þá bauð Hótel Saga bændum upp á hagstæð kjör á gistingu og veitingum. Ennþá eru nokkur herbergi laus fyrir næstu helgi en þeir bændur sem hyggjast drífa sig í bæinn ættu að hringja strax og panta í síma 525-9921. Þá bauð Borgarleikhúsið upp á góðan afslátt á leiksýninguna „Mýs og menn“ fyrir áhugasama. Nánari upplýsingar um „Bændadaga í borginni“ og tilboð til bænda er að finna hér.

Meðfylgjandi myndir tók Hörður Kristjánsson, ritstjóri Bændablaðsins.