Beint í efni

Ayrshire kúakynið – skoskt harðgert afurðakyn

24.07.2010

Ayrshire kúakynið er afar vinsælt og gott skoskt mjólkurkúakyn af miðlungs stærð, heldur stærra en íslenska kynið, eða um 450-600 kg. Ayrshire er algengt í mörgum löndum enda með marga eftirsóknarverða eiginleika s.s. gott heilsufar og góða byggingareiginleika.

 

Uppruni

Ayrshire kemur upphaflega frá Ayr sýslu í Skotlandi og er uppruni þess rakinn til 1750 þegar getið er um kynið í heimildum . Kynið var valið sérstaklega fyrir landfræðilegar aðstæður í Ayr sýslu og þykir henta mjög vel þar sem gras er uppistaða í fóðri, enda kynið þekkt fyrir

að vera harðgert í bæði hita og kulda, en mjólkurlagið.

 

 

Útlit

Ayrshire gripir eru rauð skjöldóttir og finnast nokkur litaafbrigði af rauða litnum, jafnvel yfir í dumbrautt sem virkar allt að því svart. Allir gripir eru hyrndir en lang flestir þeirra eru hornskelltir, enda ekki sérlega hentugt að vera með stórhyrnda gripi eins og Ayrshire verða fái hornin að vaxa. Eins og fyrr segir eru fullvaxnir gripir um 550 kg að þyngd og þykja henta í allar gerðir mjólkurframleiðslu í dag.

 

Eiginleikar

Í dag er Ayrshire vinsælt vegna góðra byggingareiginleika , s.s. júgur- og spenagerðar, en einnig vegna heppilegrar efnasamsetningar mjólkur en fitu og próteinhlutfall hentar vel til bæði smjör- og ostavinnslu. Þá eru kýrnar með lága frumutölu og góða endingu, auk þess sem þetta kyn virðist laust við flest þekkt fótamein sem algeng eru í afurðamiklum mjólkurkúakynjum. Kýrnar þykja einnig henta vel þar sem mjólkurframleiðslan byggir mikið til á beit og hafa m.a. verið notaðar í kynblöndun við afurðakynið Holstein til þess að ná þangað inn hinni sterku byggingu og beitarsækni.

 

Afurðir

Afurðageta Ayrshire er eftirtektarverð, sér í lagi með stærð kynsins í huga, en algeng meðalnyt í Bretlandi er um og yfir 8.500 kg/305 daga, en sumar hjarðir er hærri eða um 10.000 kg/305 daga. Núgildandi heimsmet í afurðum Ayrshire kúa eru 16.860 kg/305 dögum en mestu skráðu ársafurðir eru 18.600 kg/365 dögum en það met er ekki almennt viðurkennt enda eru öll skráð afurðamet kúa miðuð við 305 daga nyt. Vegna góðrar endingar Ayrshire kúa er ekki óalgengt að sjá tölur um æviafurðir yfir  80.000 kg.

 

Samantektin um Ayrshire kúakynið er hluti af kynningum naut.is á hinum fjölbreyttu kúakynjum heimsins sem munu birtast lesendum á næstu mánuðum og misserum. Samantektin byggir á upplýsingum af veraldarvefnum, mest frá heimasíðu Bresku Ayrshire samtakanna (www.ayrshirescs.org) og afar áhugaverðri heimasíðu um ýmis kúakyn www.thecattlesite.com.