Beint í efni

Aukinn innflutningur á búvörum yrði á hendi stóru verslunarfyrirtækjanna

27.01.2012

Skýrsla Samkeppniseftirlitsins um verðþróun og samkeppni á matvörumarkaði sýnir fram á að ekki sé áberandi munur á innkaupsverði verslana á búvörum. Ef eitthvað er sé hann minni en í flestum öðrum vöruflokkum. Þetta er mat Ernu Bjarnadóttur, hagfræðings Bændasamtakanna, sem hélt erindi um nýútkomna skýrslu eftirlitisins á kynningarfundi í gær. Hún telur að aukinn innflutningur á búvörum muni að verulegu leyti verða á hendi birgðahúsa sem eru í eigu stóru verslunarfyrirtækjanna. Þau myndu í kjölfarið ná ráðandi stöðu í verðlagningu þessara vara. Skýrsla Samkeppniseftirlitisins sýnir fram á að birgjar mismuni verslunum eftir stærð þeirra og það sama muni gilda um búvörur ef ákvæðum búvörulaga verði breytt í þá veru að innflutingur verði aukinn eins og Samkeppniseftirlitið leggur til.

Erna benti á að allar kjötvörur, ostur og smjör hafi hækkað umtalsvert minna en vísitala dagvöruverðs á tímabilinu en mjólkurvörur og egg svipað. Hún gat þess einnig að árið 2009 var hlutfallslegt verðlag á innlendum búvörum lægra á Íslandi en að meðaltali innan ESB. Ekki er tekið fram í skýrslunni að heildsöluverð á um helmingi mjólkurafurða er ákveðið af verðlagsnefnd búvöru.

Verslunin myndi bæta stöðu sína á kostnað bænda
Afnám tollverndar mun auka svigrúm smásölunnar til að afla sér aðfanga annarstaðar og bæta stöðu sína á kostnað bænda að mati Ernu. Þetta mun að öllum líkindum leiða til breytinga á verðmyndun búvara þannig að stærri hluti álagningar falli smásölunni í skaut. Reynsla Finna bendir til þess að völd smásölunnar hafi aukist við inngöngu Finnlands í Evrópusambandið og að vinnslu og smásölu hafi gengið mun betur að viðhalda eigin álagningu en bændum, sagði Erna.

Bresk stjórnvöld hafa um árabil unnið að því að efla samkeppni og réttláta viðskiptahætti
Erna vísaði í erindi sínu í stöðuna í Bretlandi þar sem stærsti aðilinn á smásölumarkaði, Tesco, væri með 31% markaðshlutdeild en sjö stærstu keðjurnar væru samtals með 92% markaðshlutdeld. Þar í landi hafa stjórnvöld um árabil unnið að því að efla samkeppni og réttláta viðskiptahætti. Stjórnvöld hafa gefið út ítarlegar reglur um starfshætti á matvörumarkaði og þær voru síðast endurbættar árið 2010. Framkvæmd og eftirfylgni reglnanna heyrir undir embættismenn í því ráðuneyti sem fer með viðskipti og samkeppnismál. Reglurnar kveða m.a. á um að gera skuli skriflega samninga um viðskipti birgja og smásölu sem tilgreina skilmála þeirra. Einnig er bannað að gera samninga sem fela í sér að birgjar taki á sig rýrnun í verslunum. Erna minnti á að fyrir alþingi liggur nú þingsályktun sem tekur til þessa en Bændasamtök Íslands hafa árum saman bent á að á þessum viðskiptaháttum þurfi að taka. Þá skulu birgjar ekki hafa skyldur til að taka þátt í markaðskostnaði smásöluverslunar, nema það sé tiltekið sérstaklega í viðskiptasamningi aðila.

Vísaði Erna í fréttatilkynningu frá ráðherra neytendamála í Bretlandi þann 3. ágúst 2010 þar sem sagði meðal annars: „Við viljum tryggja að stórar smásölukeðjur geti ekki misnotað stöðu sína með því að flytja stórfellda áhættu eða kostnað yfir á birgja sína. Þrýstingur af þessu tagi er slæmur fyrir framleiðendur og slæmur fyrir neytendur – á endanum getur þetta leitt til minni vörugæða, minna úrvals og minni frumkvöðlastarfsemi. Umboðsmaðurinn á með afskiptum sínum að geta komið í veg fyrir ósanngjarna viðskiptahætti og tryggt sanngjarnan skerf framleiðenda og beitt sér fyrir hagsmunum neytenda.“

Ættu Íslendingar að setja á fót embætti umboðsmanns matvöruviðskipta?
Erna sagði að án efa mætti leita ýmissa fyrirmynda í þeim aðgerðum sem bresk stjórnvöld hafa farið. Norðmenn hefðu verið að velta svipuðum leiðum fyrir sér á síðustu misserum. Hún mælti einnig með tekið yrði á sölu vara undir kostnaðarverði í löggjöf þar að lútandi og að skoðað yrði að setja á fót embætti umboðsmanns matvöruviðskipta. Tilgangur þess embættis væri m.a. að gæta hagsmuna minni verslana og annarra sem starfa á matvörumarkaði.

Ítarefni: Skýrsla Samkeppniseftirlitsins um verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði


Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur BÍ, flutti erindi um nýútkoma skýrslu Samkeppniseftirlitsins á Hótel Hilton Nordica, fimmtudaginn 26. janúar.