Beint í efni

Aukinn áhugi á heimavinnslu meðal bænda

25.09.2010

Undanfarin ár hefur orðið ákveðinn viðsnúningur í viðhorfum til heimavinnslu afurða og eftir hrunið má segja bylting hafi orðið í heimavinnslu. Bæði er þar um að ræða heimavinnslu til eigin nota en einnig sölu. Fyrirtækið VB landbúnaður hefur verið að sækja inn á þennan vaxandi markað með ýmis áhugaverð tæki fyrir heimavinnslu. Naut.is tók Sverri Geirmundsson, sölumann hjá VB landbúnaði, tali: „Ég hef verið að bauka í þessum heimavinnslutækjum undanfarið og þetta hefur svo hægt og bítandi verið að vinda upp á sig. Við ákváðum að gera þetta af alvöru strax frá byrjun og leituðum

 

því til landa þar sem mikil hefð er fyrir heimavinnslu s.s. í ítölsku ölpunum, Lettlandi og Austurríki“.

 

Í dag er fyrirtækið að bjóða til sölu ýmsar vörur til þess að vinna bæði smjör og osta úr mjólkinni en þar er um að ræða skilvindur, smjörstrokka, ostahleypi og ýmsar tegundir af gerlum til ostagerðar s.s. hvítmyglu, blámyglu og rauðmyglu. Þá er úrval af öllum tækjum til vinnslu á kjöti einnig í boði s.s. hnífar og sagir, pylsu- og bjúgnapressur, hamborgarapressur, hakkavélar og ýmislegt annað sem kjötvinnslu fylgir.

 

En hvernig hafa viðtökur bændanna verið? „Viðtökurnar hafa verið framar vonum, enda vorum við að fara svolítið blint í þetta. Í dag höfum við stóraukið vöruúrvalið og erum t.d. að flytja inn sérhæfð tæki fyrir þá sem eru að vinna úr jurtum s.s. þurrkofna og safapressur. Það er mikill áhugi á heimavinnslu núna og frjálsari reglur hafa blásið nýju lífi í bændur sem hafa áhuga á því að skapa sér aukastarf heima á bænum. Stjórnvöld þurfa samt að gera aðeins meira og gefa bændum færi á því að byrja smátt án þess að þurfa að fara út í dýrar framkvæmdir til þess að að fá leyfi til þess að selja afurðirnar sínar“, sagði Sverrir að lokum í viðtali við naut.is