Beint í efni

Aukin sjálfbærni varðar okkur öll!

04.05.2019

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru 17 talsins og koma við landbúnað á ýmsan hátt. Markmið sem fjalla um að útrýma hungri og huga vel að lífi á landi og í vatni eru kannski augljós hvað þá tengingu varðar, en markmiðin eru svo sannarlega fleiri sem snerta atvinnugreinina okkar. Í raun er ekki mikill tími til stefnu þar sem miðað er við að markmiðunum verði flestum náð eigi síðar en 2030 eða eftir ellefu ár. Hvernig getur lítil eyja á Atlantshafi mætt þessum markmiðum?

Til að vinna gegn hungri getum við gætt að landbúnaðinum okkar. Í dag er talið að fæðuöryggi Íslands sé ekki nema um 50%, það þýðir að við erum ekki sjálfum okkur næg með matvæli nema fyrir um helming landsmanna. Þegar talað er um sjálfbærni og uppbyggingu er rétt að horfa til þess hvað við getum gert heima fyrir til að ná þeim markmiðum að búa að nægum, öruggum og næringarríkum mat allt árið um kring. Auðvelt er að láta slíkt haldast í hendur við ábyrga neyslu og framleiðslu.

Hvað varðar öryggi matvæla gætum við minnst á þær lagabreytingar sem liggja fyrir Alþingi um þessar mundir sem snúa að því að leyfa innflutning á ófrosnu hráu kjöti og ógerilsneyddum eggjum. Mótvægisaðgerðirnar sem boðaðar eru samhliða lagabreytingunni þurfa að vera vel útfærðar og fjármagnaðar, svo öruggt sé að hægt sé að hrinda þeim í framkvæmd, því miður virðist eitthvað vanta upp á þar.

Það er órjúfanlegur þáttur af landbúnaði að hugsa vel um náttúruna og umhverfi okkar, ef það er ekki gert getur það haft veruleg áhrif á afkomu þeirra sem hafa atvinnu af landbúnaði og því hagsmunamál þeirra að gæta að sjálfbærri nýtingu, verndun á viðkvæmum vistkerfum og áhrifum loftslagsbreytinga á umhverfið. Landgræðsla og skógrækt eru landbúnaður sem dæmi og hefur fylgt okkur um árabil,það þarf ekki að vera flókið né erfitt að samtvinna landnýtingu og landvernd.

Á Íslandi eigum við séríslenskar búfjártegundir, það er ábyrgðarhlutverk að halda utan um og vernda þessa stofna. Á eins einangruðum stað og Íslandi þekkjum við ekki mörg dæmi þess að erfiðir eða hættulegir sjúkdómar herji á okkur mannfólkið og búfé, sem betur fer. Þau dæmi sem við þekkjum þó hafa skilið eftir sig erfiðleika og suma hverja erum  við að berjast við enn þann dag í dag. Þetta getur verið vandmeðfarið en þarf alls ekki að þýða afturför eða þrengingar, þetta kallar aðeins á að við vinnum saman að markmiðum, hugsum um bæði landbúnaðinn og heilnæmi matvæla.

Eitt markmið þarf ekki að útiloka annað og í grunninn er ekkert sjálfsagðara en að við tökum til hjá okkur í samræmi við þær alþjóðlegu samþykktir sem við höfum skrifað undir. Eins og í mörgum öðrum málefnum þarf fjármagn að fylgja útfærslum sem flestallar kalla á mikla og hraða vinnu jafnvel unna af sérmenntuðum einstaklingum. Greiningar, útfærslur og úrbætur eru ekki unnar úr engu. Það er miklu meira íþyngjandi og tekur lengri tíma ef ekki er hugað að peningahliðinni í upphafi.

Þó að augljós tenging sé á milli landbúnaðar og þeirra markmiða sem snúa beint að verndun búfjár, framleiðslu matvæla og umhverfisverndar þá má finna tengingu við greinina á einn hátt eða annan í gegnum þau öll. Hreint vatn, hagvöxtur, neysla, nýsköpun og jafnrétti kynjanna á ekki síður erindi við landbúnaðinn og það samfélag sem hefur skapast utan um hann. Að stunda landbúnað snýst um svo miklu meira en bara að framleiða mat. Hér á landi er þetta partur af sögu okkar, partur af öryggi, partur af því að við höfum náð að byggja okkar strjábýla land hringinn  um kring. Fjölskyldur sem stunda búskap reka heimili og fyrirtæki á sama stað, jafnvel mann fram að manni.

Heimsmarkmiðin sýna það glöggt að heimsþróunin gerir ráð fyrir landbúnaði og eflingu hans. Þar er talað um að tvöfalda framleiðni og tekjur þeirra sem framleiða í litlu magni, einkum kvenna, frumbyggja, bændafjölskyldna, hirðingja og sjómanna. Standa eigi vörð um erfðafræðilega fjölbreytni fræja og ræktaðra plantna og efla sjálfbærni skóga af öllu tagi. Það á að reyna stöðva þróun sem óæskileg þykir líkt og að sporna við hnignun náttúrulegra búsvæða, líffræðilegrar fjölbreytni og taka til gildis vistkerfi við skipulag og nýtingu. Hér á landi erum við í kjöraðstæðum til að vera jafnvel leiðandi í vinnu og útfærslu ýmissa þessara markmiða, látum ekki tækifærið úr greipum renna.

Jóhanna María Sigmundsdóttir