Beint í efni

Aukin eftirspurn í Asíu hækkar mjólkurduftsverð

08.03.2011

Samkvæmt upplýsingum frá Fonterra hefur verð á mjólkurdufti hækkað mikið á undanförnum vikum vegna stöðugrar eftirspurnar frá Kína. Hefur þessi mikla eftirspurn valdið hækkunum á fleiri vörum og má búast við áhrifum hennar á verðbólgu víða um heim að sögn talsmanna Fonterra, stærstu útflytjenda í heimi á mjólkurafurðum. Mjólkurduftið í síðustu viku endaði í 3.558 dollurum tonnið (um 420 þúsund Íkr) og er það hæsta verð á dufti sem fengist hefur frá því í júlí árið 2008. Verðið á duftinu hefur kallað á stóraukna framleiðslu en Fonterra hefur áhyggjur af því að

geta ekki annað eftirspurninni vegna þurrka þar í Nýja-Sjálandi, sem geta haft veruleg áhrif á mjólkurframleiðsluna.

 

Þar sem matarverð í mörgum löndum er svokallað heimsmarkaðsverð hefur verðið víða hækkað mjög mikið vegna þessara Asíuáhrifa, sem hefur aftur m.a. leitt til uppþota meðal almennings bæði í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum, enda hafa margir þar ekki svigrúm til þess að mæta þessum miklu verðhækkunum.

 

Að sögn talsmanna Fonterra ættu þurrkar í Nýja-Sjálandi ekki að hafa frekari hækkunaráhrif á duftið þar sem bændur í bæði Evrópu og Bandaríkjunum geta aukið framleiðslu sína all verulega frá því sem nú er og þannig annað eftirspurninni frá Asíu og Mið-Austurlöndum. Talið er að árleg aukning í neyslu mjólkurvara í framangreindum heimshlutum sé fjögur til fimm prósent og sér ekki fyrir endann á stöðugt aukinni eftirspurn.