
Aukið fjármagn til einangrunarstöðvar og fjárfestingastuðnings
04.05.2017
Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur ákveðið að ráðstafa framlögum vegna framleiðslujafnvægisliðs búvörusamninga (6.gr. samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar) með eftirfarandi hætti á árinu 2017:
- 20 milljónum verður ráðstafað á lið um greiðslur vegna nautakjötsframleiðslu (9.gr.), nánar tiltekið til einangrunarstöðvar vegna innflutnings á erfðaefni holdanautgripa. Ljóst er að rekstur einangrunarstöðvarinnar og framkvæmdir á árinu 2017 kalla á aukið fjármagn. Vandséð er það einstaka verkefni sem styður jafn vel við aukið framboð á íslensku nautakjöti til framtíðar og endurnýjun erfðaefnis holdanautgripa mun koma til með að gera.
- 79 milljónum verður ráðstafað á lið 8.1 um fjárfestingastuðning. Mikil þörf er á framkvæmdum í búgreininni svo framboð í takt við eftirspurn sé tryggt til framtíðar. Þar má benda á að í byrjun árs 2016 voru hefðbundin básafjós tæplega 300 talsins, en samkvæmt nýrri aðbúnaðarreglugerð um velferð nautgripa, verður notkun á slíkum fjósum óheimil eftir 17 ár, í árslok 2034. LK hefur metið að kostnaður við endurnýjun þessara fjósa sé nálægt 20 milljarðar kr. Með ráðstöfun fjármagns af framleiðslujafnvægislið samningsins á þennan lið samningsins er enn frekar verið að styðja við og skapa rekstrarskilyrði til að takast á við stórauknar kröfur um aðbúnað gripanna.
Við fögnum þessari niðurstöðu framkvæmdanefndar og er þessi ráðstöfun í samræmi við tillögu frá stjórn LK sem tekin var fyrir á síðasta stjórnarfundi, 25. apríl sl. Fundargerð 2. fundar stjórnar LK má lesa hér