Beint í efni

Aukabúgreinaþing Nautgripabænda BÍ 2023

06.01.2023

Stjórn búgreinadeildar Nautgripabænda BÍ boðar hér með til Aukabúgreinaþings þann 24. janúar 2023, kl. 13:00 á Teams.

Aukabúgreinaþingið er boðað sérstaklega til þess að taka fyrir breytingu á grein 6.1 í samþykktum Nautgripabænda BÍ.

Ástæður þess að breytingatillagan er lögð fram eru að á Búgreinaþingi 2022 voru samþykktar samþykktir sem gerðu ráð fyrir að formaður sæti til tveggja ára eða á sama tímabili og stjórn BÍ. Eftir samráð við lögfræðing kom í ljós að breyting á kjörtímabili formanns getur ekki tekið gildi fyrr en á næsta Búgreinaþingi eða Búgreinaþingi 2023. Sitjandi formaður var því einungis kosinn til eins árs. Á Búgreinaþingi 2023 þarf því að kjósa formann til tveggja ára, en það stemmir ekki við kjörtímabil stjórnar BÍ .

Til þess að rétta þetta af hefði því þurft að vera auka ákvæði í samþykktunum um að á búgreinaþingi árið 2023 væri formaður deildarinnar kosinn til eins árs en síðan í næstu kosningum þar á eftir tæki við tveggja ára tímabil fyrir setu formanns til samræmis við kosningu til stjórnar BÍ.

 

Í grein 6.1. samþykktanna stendur:

„Stjórn Nautgripabænda BÍ skal skipuð fjórum einstaklingum auk formanns, sem allir skulu kosnir á Búgreinaþingi, formaður til tveggja ára en aðrir stjórnarmenn til eins árs. Fyrst skal kjósa formann, næst 4 fulltrúa í stjórn og loks 3 varamenn. Kosningar skulu vera leynilegar. Stjórn kýs sér varaformann og ritara.“

Leggur stjórn Nautgripabænda BÍ því fram eftirfarandi breytingu á grein 6.1 í samþykktum Nautgripabænda BÍ:

Stjórn Nautgripabænda BÍ skal skipuð fjórum einstaklingum auk formanns, sem allir skulu kosnir á Búgreinaþingi, formaður til tveggja ára en aðrir stjórnarmenn til eins árs. Fyrst skal kjósa formann, næst 4 fulltrúa í stjórn og loks 3 varamenn. Kosningar skulu vera leynilegar. Stjórn kýs sér varaformann og ritara.

Á búgreinaþingi í febrúar 2023 verður formaður þó kosinn til eins árs (fram að næsta búgreinaþingi) til að kosning formanns og stjórnar BÍ lendi á sama starfsárinu. Ákvæðið um að formaður skuli kosinn til tveggja ára tekur gildi að því starfstímabili stjórnar loknu.

Verði viðbótarákvæðið samþykkt, má starfa eftir því á Búgreinaþingi 2023.

  

Samkvæmt samþykktum Nautgripabænda BÍ hafa einungis fulltrúar Búgreinaþings 2022 tillögu- og atkvæðisrétt á Aukabúgreinaþinginu. Auk þeirra hefur stjórn Nautgripabænda BÍ málfrelsi og tillögurétt.


Aukabúgreinaþingið er þó opið öllum félagsmönnum deildarinnar til áheyrnar en óski þeir eftir að sitja þingið með málfrelsi og tillögurétt skal það borið undir fundinn.


Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með Aukabúgreinaþing Nautgripabænda þann 24. janúar þá má finna hlekk á fundinn hér.