Beint í efni

Auðhumla semur um rekstrarstöðvunartryggingar fyrir félagsmenn

17.01.2008

Auðhumla hefur gert samkomulag til þriggja ára um rekstrarstöðvunartryggingu vegna bruna og óveðurs fyrir félagsmenn sína. Iðgjaldið verður greitt af Auðhumlu og er það tæplega 16 aurar á lítra.  Um er að ræða ákveðið þróunarverkefni og verður stefnt að því að útvíkka trygginguna á samningstímanum þannig að hún nái einnig yfir ákveðna sjúkdóma ef það er talið hagkvæmt. Rekstrarstöðvunartryggingin hefur þegar tekið gildi. Gagnvart nýjum félagsmönnum tekur tryggingin gildi við fyrsta mjólkurinnlegg. Þeir sem þegar hafa rekstrarstöðvunartryggingar hafa val um að halda áfram með sínu tryggingarfélagi eða nýta sér þessa þjónustu Auðhumlu.

Við höfum verið minnt óþyrmilega á það á undanförnum misserum að slysin gera ekki boð á undan sér og því hér um mikið hagsmunamál að ræða fyrir félagsmenn Auðhumlu. Með því að ganga frá tryggingunum á þennan hátt fáum við mjög hagstæð iðgjöld. Þá er einnig samkomulag um að félagsmenn Auðhumlu fái aðgang að forvarnarfulltrúum Sjóvá ef framundan eru breytingar á fjósum eða nýbyggingar.

Tryggingarskilmálar og aðrar upplýsingar um rekstrarstöðvunartrygginguna verða settar inn á Auðhumluvefinn síðar í þessum mánuði. Það voru Gunnar Jónsson skrifstofustjóri Auðhumlu og Sveinn Segatta framkvæmdastjóri hjá Sjóvá sem gengu frá samkomulaginu um rekstrarstöðvunartrygginguna. Félagsmenn Auðhumlu geta nálgast frekari upplýsingar um trygginguna hjá Garðari Eiríkssyni í síma 569 2206.

Af www.audhumla.is