
Auðhumla: Nýtt verð fyrir umframmjólk frá 1. febrúar 2023
07.02.2023
Stjórn Auðhumlu svf. ákvað á fundi sínum þann 2. febrúar 2023 að afurðastöðvarverð fyrir umframmjólk verði að lágmarki kr. 75.- á hvern innlagðan líter á yfirstandandi verðlagsári.
Þetta tekur gildi frá 1. febrúar 2023 og gildir þangað til annað verður ákveðið. Út frá þessu verði verður síðan reiknað gæðaálag, verðfellingar og efnainnihald.
Í tilkynningu Auðhumlu kemur jafnframt fram að á komandi mánuðum og misserum verður grannt fylgst með forsendum útflutnings mjólkurvara með tilliti til þróunar heimsmarkaðsverðs, kostnaðar- og gegnisþróun. Uppbætur verða svo greiddar eftir að lokauppgjör ársins hefur farið fram, ef forsendur verða til þess.
"Útjöfnun síðasta árs var 6,7 milljónir lítra sem er óvenju mikið og greiðslumark ársins eykst um 2,5 milljónir lítra. Það er því full ástæða til að hvetja bændur til að framleiða upp í sitt greiðslumark" segir í tilkynningunni.
Fyrr á árinu tilkynnti Auðhumla að stjórn hefði samþykkt á fundi sínum þann 30. janúar 2023 að kostnaður sem bændur greiða fyrir mjólkursöfnun verði kr. 5,50 fyrir hvern líter frá 1. febr. 2023.
Er þetta hækkun um 35 aura frá fyrra ári. Helstu ástæður eru hækkun launaliða, eldneytiskostnaður og fjármagnskostnaður.