Áttunda heimsráðstefnan um búfjárkynbætur
22.09.2006
Áttunda heimsráðstefnan um búfjárkynbætur var haldin í borginni Belo Horizonte í Brasilíu 14. til 18. ágúst s.l. Á ráðstefnunni voru haldin vel yfir 800 erindi um öll svið búfjárkynbóta, allt frá heimspekilegum umræðum um kynbætur almennt, yfir í aðferðir við gerð ræktunarskipulags fyrir silkiorma. Ráðstefnan skiptist í 34 deildir, ýmist eftir búfjártegundum, líffræðilegum ferlum eins og mjólkurmyndun, frjósemi, atferli eða mótstöðu gegn sjúkdómum og nýjum tölfræðiaðferðum í kynbótaútreikningum. Þá var mikið fjallað um kortlagningu erfðavísa, hagnýtingu erfðaauðlinda og gerð ræktunarskipulags. Ráðstefnuna sóttu um 1000 manns frá gervallri jarðarkringlunni.
Sex Íslendingar sóttu ráðstefnuna, Jón Viðar Jónmundsson, Bændasamtökum Íslands, Emma Eyþórsdóttir og Magnús B. Jónsson, Landbúnaðarháskóla Íslands, Theódór Kristjánsson, Stofnfiski, Þorvaldur Árnason, Sænska Landbúnaðarháskólanum og Baldur Helgi Benjamínsson, Landssambandi kúabænda.
Líkt og oft áður var nautgriparæktin fyrirferðarmikil á ráðstefnunni. Um hana sem slíka voru fluttir einir 93 fyrirlestrar. Meðal þeirra veigameiri voru nokkrir fyrirlestrar um blendingsrækt. Til þessa hefur blendingsrækt ekki verið mikið til umræðu hjá nautgripum, en nú ber svo við að hún er orðin talsvert stunduð. Sérstaklega á það við vestan hafs, en þarlendir nautgripabændur flytja nú orðið inn talsvert magn erfðaefnis, sérstaklega frá Skandinavíu. Þar er því blandað saman rauðu kynjunum við bandaríska svartskjöldótta stofninn. Ástæður þessa eru einkum þær að bandaríski stofninn hefur átt við talsverð frjósemisvandamál að etja. Í erindi Heins og félaga frá háskólanum í St.Paul, Minnesota, kom fram að blendingskýr af skandinavískum rauðum x Holstein stofni voru frjósamari og entust betur en hreinræktaðir Holstein gripir. Liðu að jafnaði 150 dagar frá burði þar til hreinræktuðu kýrnar festu fang, meðan sama tímabil hjá blendingsgripunum var 129 dagar. Búið var að fella 14% af Holstein kúnum eftir 305 daga frá fyrsta burði, á meðan 7% af blendingskúnum höfðu gengið fyrir ætternisstapann undir lok fyrsta mjaltaskeiðsins.