Beint í efni

Átta kýr drápust eftir að éta kínversk ljósker

15.03.2012

Í tilefni af nýju ári og ýmiskonar hátíðarhöldum s.s. giftingum kveikja Kínverjar oft á sérstökum ljóskerum sem lyfta sér til himins og margir kannast eflaust við. Ljósker þessi geta farið mörg þúsund fet upp í loft þar til þau brenna upp og falla niður. Þó svo að mestur hluti þeirra brenni upp er einn galli á þeim, en þau eru spennt upp af vírþráðum sem geta valdið miklu tjóni eins og breski kúabóndinn Will Lacey lenti í á dögunum þegar átta af kúnum drápust eftir að hafa bragðað á uppbrunnum ljóskerunum.
 
Will Lacey, sem er með 120 Guernsey kýr í High Wycombe í Buckinghamskíri, sagði að krufning á kúnum hafi leitt í ljós að kýrnar hefðu allar drepist af innvortis blæðingum eftir að hafa í fikti étið hin föllnu ljósker. Nú hefur Will slegist í stóran hóp folks sem vill láta banna þessi ljósker en þau geta náð upp í mörg þúsund fet og ekki þarf að spyrja að leikslokum ef flugvélamótor fengi slíka vírasúpu inn í sig svo dæmi sé tekið. Ennfremur er mikil eldhætta eðlilega af þessum ljóskerum.
 
Nú þegar hafa mörg lönd þegar bannað svona ljóskeraflug en meðal þeirra eru Þýskaland, Malta, Ástralía og Spánn. Þá hefur verið sett bann við því í Finnlandi að skilja við eld án eftirlits, sem sjálfkrafa þá leysir þetta vandamál/SS.