
Athygliverð beitartilraun á Hvanneyri
28.07.2003
Þessa dagana stendur yfir beitartilraun á Hvanneyri, þar sem kýrnar fá að velja sjálfar hvaða tegund af grænfóðri þær éta. Í tilrauninni er fylgst með atferli kúnna og jafnframt gerðar uppskerumælingar. Þessa dagana fá kýrnar aðgengi að fimm mismunandi tegundum af grænfóðri: blöndu af sumarrýgresi og sumarrepju, byggi, sumarrepju, sumarrýgresi og sumarhöfrum (talið frá vinstri á mynd).
Í seinni hluta tilraunarinnar fá kýrnar svo frjálst aðgengi að ýmsum vetrarafbrigðum grænfóðurs. Tilraunin tengist lokaverkefni nemanda við Landbúnaðarháskólann og sér dr. Ríkharð Brynjólfsson, prófessor við skólann, um tilraunina. Gert er ráð fyrir að tilrauninni ljúki í lok ágúst og að frumniðurstöður verði kynntar á ráðunautafundi 2004.
Á meðfylgjandi mynd, sem tekin er frá Arnarhól á Hvanneyri („suður í landi“), má sjá yfir tilraunasvæðið og Hvanneyrarstað í bakgrunni. Tilraunin fer fram á s.k. skólaflötum og í bakgrunni tilraunasvæðisins má m.a. sjá nýbyggingar Nemendagarðanna.