Beint í efni

Athugasemdir vegna umfjöllunar BLAÐSINS um greiðslur fyrir umframmjólk næsta verðlagsár

11.08.2007

1. BLAÐIР reynir að gera það tortryggilegt að ég nefndi Mjólku ehf ekki í umfjöllun um tilkynningu Mjólkursamsölunnar um greiðslur fyrir umframmjólk. Þessar dylgjur eru ómaklegar vegna þess að þegar umræddur pistill var ritaður hafði Mjólka ehf ekki gefið út hvað fyrirtækið hygðist greiða fyrir umframmjólkina. Síðan er það út í hött og óraunhæfur möguleiki vegna húsnæðis og annarar aðstöðu, að allir framleiðendur geti flutt sig yfir til Mjólku næsta verðlagsár.

2. Áætlað er að mjólkurframleiðslan næsta verðlagsár verði ca. 124 milljónir lítra. Af því er gert ráð fyrir að seljist á innanlandsmarkaði ca. 117 milljónir lítra. Því þarf að flytja út mjólkurafurðir úr ca. 7 milljónum lítra.

3. Í reglugerð um mjólkurframleiðsluna næsta verðlagsár segir í 3. grein ,,Framleiðsla,  umfram greiðslumark skal fara á erlendan markað á ábyrgð hvers framleiðanda og viðkomandi afurðastöðvar. Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur þó gefið skriflega heimild til sölu þessara vara innanlands ef heildarframleiðsla verður minni en sala og birgðastaða gefur tilefni til“.

 

4. Landssamband kúabænda telur að ein lög skuli gilda um alla kúabændur. Greiðslumark til til mjólkurframleiðslu felur m.a. í sér forgang að innlendum markaði eins og framangreind tilvitnun sýnir. Þau ákvæði verða að gilda um alla mjólkurinnleggjendur, hvar sem þeir leggja inn mjólkina.

5. Síðasti áratugur hefur verið tími mikilla framfara í íslenskri mjólkurframleiðslu og mjólkurvinnslu. Ein meginforsenda þessara framfara er festa í starfsskilyrðum greinarinnar sem gert hefur bændum kleyft að fjárfesta í bættri framleiðsluaðstöðu á öllum sviðum. Þessari þróun má ekki tefla í tvísýnu með óvissu um grundvallarforsendur í starfsumhverfinu.

6. Það er rétt að alveg frá því Mjólka ehf hóf starfsemi hef ég lýst efasemdum vegna þeirra hugmynda forsvarsmanna fyrirtækisins að sniðganga þá framleiðslustýringu sem bundin er í lögum, og kúabændur hafa gengið út frá við ákvarðanir um fjárfestingar, bæði í framleiðsluaðstöðu og greiðslumarki.  Það er hins vegar rangt að ég hafi að öðru leyti amast við Mjólku ehf.

7. Þessar deilur í kringum Mjólku ehf eru í raun alveg óskiljanlegar. Í nágrannalöndum okkar eru einkarekin samlög við hlið stærri samlaga í eigu bænda og engin vandamál með það. Væri það ekki verðugt viðfangsefni fyrir fjölmiðla að skoða hvernig málum er fyrir komið þar ? 

8. Eins og fyrr segir er talið að flytja þurfi út mjólkurafurðir úr ca. 7 milljónum lítra á næsta verðlagsári. Útflutningurin skilar því miður nokkuð lægra verði en innlendi markaðurinn. Spurningin er: Hvaða kúabændur eiga að bera kostnaðinn vegna þessa ?

                                                                  Ferjubakka II 10.8.2007

 

Pistillinn birtist í BLAÐINU í dag, 11. ágúst 2007