
Athugasemdir gerðar við skýrslu um þróun tollverndar
19.11.2020
Í nýrri skýrslu um þróun tollverndar sem unnin var á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins kemur m.a. fram að dregið hafi úr tollvernd á landbúnaðarvörum vegna tollalækkana og aukinna tollkvóta undanfarin ár. Athygli vekur að víða í skýrslunni er vikið að því að gögn hafi skort til að unnt væri að leggja mat á þau viðfangsefni sem tekin voru til skoðunar, hins vegar var aldrei leitað til aðila eins og SAM við vinnslu skýrslunnar, sem þó býr yfir fullkomnasta gagnagrunni landsins um framleiðslu og ráðstöfun mjólkur og mjólkurafurða. Auk þessa eru í skýrslunni dregnar ályktanir sem ekki standa efni til á grundvelli þeirra upplýsinga sem þó eru til staðar.
Landssamband kúabænda ásamt Bændasamtökunum og öðrum aðildarfélögum þess auk hagsmunasamtaka afurðastöðva hafa rýnt skýrsluna og sent athugasemdir og ábendingar til landbúnaðarráðherra. Niðurstaða þeirra er að skýrslan sé því miður slíkum annmörkum háð að ekki er hægt að leggja hana til grundvallar, án lagfæringa, við stefnumótun í málefnum landbúnaðarins.
Víða í skýrslunni er því haldið fram að „Innlend framleiðsla virðist í flestum tilvikum ekki hafa haldið í aukna eftirspurn og henni hefur verið mætt í meira mæli með innflutningi.“ Hið rétta er að skortur kom upp á afmörkuðum skrokkhlutum nauta- og svínakjöts af og til á því tímabili sem skoðað er í skýrslunni og var þá opnað á tollkvóta á ákveðnum tollskrárnúmerum fyrir ákveðna skrokkhluta í ákveðinn tíma. Með opnun tollkvóta var heimilaður innflutningur á tiltekinni vöru á lágum tollum, eða 45% af þeim magntolli sem leggjast myndi á ef tollkvótinn væri ekki opinn, sem og að ekki lagðist 30% verðtollur á innflutninginn. Hér var í öllum tilvikum um afmörkuð tímabil að ræða og einungis fyrir tiltekna skrokkhluta en ekki öll tollskrárnúmer fyrir viðkomandi kjöttegund. Það hefðu verið betri vinnubrögð í skýrslunni að gera nánari grein fyrir þessu og því hvenær slíkar undanþágur frá almennum tollum voru síðast gerðar í stað þess að draga þá víðtæku ályktun að innlend framleiðsla hefði ekki getað mætt vaxandi eftirspurn á innanlandsmarkaði.
Þá má einnig nefna að útflutningur mjólkurafurða á tímabilinu 2007-2019 var fjórum sinnum meiri en innflutningur og því á fyrrgreind ályktun um getu innlendrar framleiðslu til að bregðast við auknu framboði ekki við um þær, utan tveggja mánaða á þeim 13 árum sem litið er til. Sama gildir um lambakjötsframleiðslu.
Ekki tekið tillit til opinna tollkvóta
Í umfjöllun um nautakjöt er fjallað um innflutning samkvæmt fyrrgreindum opnum tollkvótum en þar kemur fram að á árinu 2015 hafi áætlaður innflutningur á opnum tollkvótum numið 990 tonnum, sem er meira en allur samanlagður tollkvóti fyrir nautakjöt á árinu 2020 svo dæmi sé tekið. Sé tekið tillit til þessara opnu tollkvóta má sjá að innflutningur ársins 2015 rúmaðist allur innan tollkvóta og opinna tollkvóta og nam árið 2016 um 76,5% samkvæmt áætluðum tölum sem birtast í skýrslunni. Því vekur það furðu að í niðurstöðukafla skýrslunnar sé því haldið fram að „frá árinu 2011 hefur innflutningur verið umfram tollkvóta í flestum kjöttegundum“ en ekki sé tekið tillit til þeirra opnu tollkvóta sem boðnir voru út á tímabilinu. Þetta hefði þurft að greina mun ýtarlegar í skýrslunni.
Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um hversu mikið magn var flutt inn á hverju ári sem slíkar opnanir (opnir tollkvótar) voru gerðar fyrir nauta- og svínakjöt sem sætir nokkurri furðu. Ekki er hægt að daga ályktanir um þessa þróun ef ekki er hægt að greina á milli þess á hvaða kjörum og í hvaða magni vörur eru fluttar inn á tilteknu tímabili. Þarna getur verið um að ræða innflutning á WTO-kvóta, ESB-kvóta eða opnum tollkvótum svo nokkuð sé nefnt.
Rangar tölur og enginn fyrirvari vegna misræmis gagna
Í umfjöllun um þróun tollkvóta fyrir ost eru allar tölur rangar og þar með allar ályktanir sem af þeim eru dregnar. Tollkvóti fyrir smurosta frá Noregi eru hvergi talinn með og frá árinu 2018 virðist WTO tollkvótinn hafa dottið út úr samtölunni í skýrslunni og einungis talinn ESB tollkvótinn. Nemur mismunurinn á tímabilinu sem er til skoðunar í skýrslunni 666 tonnum af osti.
Þá er enginn fyrirvari gerður vegna þess misræmis sem komið hefur í ljós á útflutningstölum ESB ríkja til Íslands og innflutningstölum samkvæmt Hagstofu Íslands, þrátt fyrir að starfshópur fjármálaráðuneytisins hafi sérstaklega tekið fram í minnisblaði sínu að „Það misræmi sem finna má í gögnum um innflutning landbúnaðarafurða gefur ranga mynd af raunverulegri stöðu utanríkisviðskipta á Íslandi og hefur það afleiðingar fyrir áætlanagerð, greiningarvinnu og tekjuöflun ríkissjóðs svo eitthvað sé nefnt.“ Þar kemur einnig fram að „…sé misræmið þó meira en eðlilegt getur talist eins og raunin virðist í tilfelli innflutnings landbúnaðarvara til Íslands, kallar það á frekari rannsóknar- og greiningarvinnu.“