Athugasemd yfirdýralæknis vegna fréttar um ísgerð
28.03.2006
Í grein um ísgerðina á Holtsseli er haft er eftir bóndanum á bænum Guðmundi J. Guðmundssyni að hann sé mjög undrandi á viðbrögðum yfirdýralæknis sem hafi tafið málið mikið og reynt hreinlega að koma í veg fyrir að verkefnið yrði að veruleika. Ennfremur hafi ég viðhaft niðrandi ummæli um býlið.
Ég hef nú rætt við bóndann og hann upplýsir að þetta sé ekki rétt eftir sér haft, heldur sé túlkun fréttaritara á viðtali við hann.
Hið rétta í málinu er að bóndinn í Holtsseli sækir um á vormánuðum 2005 til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, að hefja ísgerð í hlöðu.Til standi að innrétta sérstakt rými á efri hæð í hlöðunni, en á neðri hæð verði kálfauppeldi. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra sendi erindið til Umhverfisstofnunar þar sem óskað er eftir umsögn stofnunarinnar um málið. Þar sem mál þetta var hið fyrsta sinnar tegundar og embætti yfirdýralæknis ( nú hluti af Landbúnaðarstofnun) fer með frumeftirlit í mjólkur- og nautgripakjötsframleiðslu, þá vísaði Umhverfisstofnun málinu til Matvælaráðs og þar er það fyrst tekið fyrir á fundi ráðsins þann 21. apríl 2005. Matvælaráð ályktaði að gera eigi sömu kröfur til þessarar starfsemi og til annarra mjólkurvöruframleiðenda. Það sé ennfremur skoðun ráðsins að útgáfa starfsleyfis og eftirlit með framleiðslunni eigi að vera hjá héraðsdýralækni. Bent var á mikilvægi þess að unnið verði eftir sömu verklagsreglum þegar um væri að ræða sambærilega starfsemi, þó að eftirlitsaðilar væru ekki þeir sömu. Skoða þurfi sérstaklega verklagsreglur um ísframleiðslu í þessu sambandi. Matvælaráð starfar samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli og í því eiga sæti fulltrúar þeirra stofnana sem fara með yfirumsjón á matvælaeftirlit á Íslandi, þ.e.a.s. embætti yfirdýralæknis, Fiskistofu og Umhverfisstofnunar.
Málið var því sett í faglega og rétta málsmeðferð og hefur eðlilega tekið nokkurn tíma, því eins og áður sagði þá var það hið fyrsta sinnar tegundar og ekki einfalt að ákveða undir hvaða eftirlitsaðila það skyldi heyra.
Það er því alrangt að ég hafi reynt að tefja málið eða reynt að koma í veg fyrir að það yrði að veruleika. Það þurfti einfaldlega að skoðast mjög vel, af réttum aðilum og því eðlilegt að málsmeðferðin tæki nokkurn tíma og ekki hjálpaði til hið flókna kerfi sem við búum við hér á landi, að matvælaeftirlit sé á hendi þrettán mismunandi stofnana, en ekki einnar eins og í mörgum nágrannalöndum okkar, svo sem í Noregi og Danmörku.
Hvað varðar þá ásökun að ég hafi haft niðrandi ummæli um býlið, þá er hér sennilega um misskilning fréttaritara að ræða. Í heimsókn minni á bæinn í desember sl., ásamt héraðsdýralækni og framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, ræddi ég í samræmi við ályktun Matvælaráðs, að fara þyrfti varlega við veitingu starfsleyfis fyrir svona matvælaframleiðslu í nánum tengslum við nautgripi. Þetta var almenn staðhæfing sem á við á hvaða bóndabæ sem er og var á engan hátt beint að Holtsseli, enda lá þá ljóst fyrir að þannig yrði staðið að ísframleiðslunni, að öryggi neytenda yrði tryggt.
Ég get hins vegar skilið að bóndanum hafi fundist málið taka langan tíma að fara í gegnum kerfið og að hann hafi ekki fengið nógu góðar upplýsingar um ferli málsins, en það á sínar rætur að rekja til þess sem að ofan er getið, en ekki til illvilja af minni hálfu.
Ég óska því bóndanum og fjölskyldu hans í Holtsseli alls hins besta með þessa nýju framleiðslu.
Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir.
Athugasemdir vefstjóra:
Í tveimur samtölum mínum við ábúendur í Holtseli, nú síðast í morgun (28. mars) hefur komið fram nákvæmlega það sem stendur í frétt frá 20. mars sl. Það sem þar er skrifað stendur því óhaggað.