Beint í efni

Athugasemd vegna fréttar um gripaflutninga

05.09.2007

Sigurður Sigurðarson dýralæknir á Keldum hefur farið þess á leit að eftirfarandi athugasemdir verði birtar hér á síðunni.

 

„Blóðpróf sem beitt er til að leita mótefna gegn garnaveikisýklum er hjarðpróf fyrst og fremst, miklu síður einstaklingspróf. Þess vegna er á misskilningi byggt það sem fram kemur í fréttamiðli LK frá 23. ágúst, að eingöngu skuli taka sýni úr gripum sem flytja á, hvorki fleiri né færri.
Það er sem sagt ekki nógu tryggt að prófa aðeins gripi, sem flytja á heldur alla hjörðina þ.e. alla gripi sem eru orðnir nógu gamlir til að hægt sé að mæla mótefnin. Það eru allar kálffullar kvígur og aðra gripi tveggja vetra og eldri. 

Garnaveiki er lengi að búa um sig. Tíminn getur skipt árum. Það er ekkert grín að fá garnaveiki í kúahjörð. Það tekur mörg ár að losna við hana aftur, stundum meira en 10 ár. Veikin getur verið eins og falinn eldur og hún kemur stundum fram við eða eftir flutning til nýrra heimkynna á gripum sem ganga með dulið smit. Landsamband kúabænda þarf að stuðla að því með okkur að fyllsta öryggis sé gætt. Þetta eru þær reglur, sem gefnar eru út frá Tilraunastöðinni á Keldum og byggja á reynslu erlendis frá og einnig okkar reynslu á Íslandi.

Ekki er alltaf talið nauðsynlegt að prófa nautgripi sem óskað er að flytja. Það á við, þegar flutt er frá svæðum þar sem garnaveiki hefur ekki fundist eða bólusetningu sauðfjár og geita hefur verið hætt. Meta þarf heilbrigðisástand í öllum tilfellum samt sem áður því að um fleiri smitsjúkdóma er að ræða en garnaveiki t.d. veiruskitu og smitandi júgurbólgu svo dæmi séu tekin og er það mat falið viðkomandi héraðsdýralæknum. Einnig þarf að fá upplýsingar um aðkeypta eða aðflutta gripi á viðkomandi bæ. Það er nauðsyn vegna langvinnra eða hægfara sjúkdóma að meta heilbrigðisástand hjarðarinnar sem flutt er úr ekki bara einstakra gripa. Einnig getur skipt máli við matið, hvort nautgripir og sauðfé er haft í sömu húsum. Slíkt getur spillt möguleikum á að fá leyfi.

Með vinsamlegri kveðju,
Sigurður Sigurðarson dýralæknir“.