Beint í efni

Atferlismælar samtengdir við jórturgreina greina sjúkdómseinkenni fyrr

07.11.2017

Vísindafólk á vegum hins þekkta háskóla Cornell í Bandaríkjunum hefur komist að afar áhugaverðum niðurstöðum varðandi notkun á aukinni tækni við eftirlit með kúm. Í rannsókninni voru 60 kúabú heimsótt og voru bændur spurðir út í hvernig þeir fylgdust í raun með kúnum sínum og þá sér í lagi nýbærunum. Flestir litu eftir þeim einu sinni á dag, þ.e. fyrir utan mjaltirnar sjálfar, 36% skoðuðu þær tvisvar á dag fyrir utan mjaltirnar og svo upplýstu 5% svarenda að þeir skoðuðu nýbærur ekki sérstaklega á milli mála.

Með þessar niðurstöður í farteskinu, en viðtölin voru gerð fyrir nokkrum árum, byrjaði vísindafólk Cornell að leita leiða til þess að veita nýbærum aukið eftirlit með sjálfvirkum hætti. Með því að vera bæði með atferlismæla, þ.e. mæla sem fylgjast með hreyfingum kúnna, og mæla sem hlusta eftir því hvort kýrnar jórtri eðlilega og hægt er að festa á hálsól kúnna, tókst þeim að fylgjast afar vel með kúnum. Síðan var búinn til hugbúnaður sem túlkaði þær upplýsingar sem mælarnir sendu frá sér og gat þessi búnaður, eftir þróun og aðlögun, greint bæði þekkta fóðrunartengda sjúkdóma auk fleiri sjúkdóma eins og t.d. júgurbólgu. Það sem meira er þá getur búnaðurinn greint forstigseinkenni sjúkdómanna mun fyrr en bændurnir sjálfir.

Búnaðurinn náði að finna 93% þeirra kúa sem fengu efnaskipta sjúkdóma og það tveimur dögum áður en þær sýndu sýnileg einkenni og svipaðar niðurstöður fengust varðandi ýmsa aðra kvilla. Vísindafólkið bendir á að svona búnaður geti stórlega eflt og auðveldað allt eftirlit með kúnum en leysa þurfi þó það vandamál sem snýr að meðhöndlunarúrræðum. Í dag eru kýr ekki meðhöndlaðar nema þær séu klárlega veikar og forstigseinkenni veikinda sem einungis tölva greinir er ekki nógu góð ástæða til þess að hefja meðhöndlun. Það er þó dagljóst að búnaður sem þessi stórbætir dýravelferðina sé komið í veg fyrir að kýrnar veikist og því þarf að finna lausn á þessu samspili á milli greiningaraðferða og meðhöndlunarúrræða/SS.