Beint í efni

Átak í viðhaldi og endurnýjun varnargirðinga

26.04.2013

Á síðasta degi vetrar var undirritað samkomulag milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sláturleyfishafa um ráðstöfun þriggja sjóða sem innheimtu hefur verið hætt til. Stærstum hluta fjárins verður varið til viðhalds og endurnýjunar varnargirðinga til að hefta útbreiðslu sauðfársjúkdóma.

Sjóðirnir sem um ræðir eru:
Verðmiðlunarsjóður kindakjöts. Alls nema eftirstöðvar sjóðsins tæplega 63,7 m.kr. en innheimtu í hann var hætt 1. janúar 2006. Til endurnýjunar varnargirðinga á árinu 2013 er varið 40 m.kr. Eftirstöðvarnar renna til Landssamtaka sláturleyfishafa.

Verðskerðingarsjóður nautakjöts. Alls nema eftirstöðvar sjóðsins rúmum 1,4 m.kr. en innheimtu í hann var hætt 1. janúar 2006. Er fénu varið til Landssambands kúabænda til að standa straum af markaðsstarfi.

Útflutningssjóður kindakjöts. Alls nema eftirstöðvar sjóðsins tæpum 6,5 m.kr. en engar tekjur hafa runnið í sjóðinn frá 1. júní 2009. Rennur fjárhæðin til Landssamtaka sláturleyfishafa.