Beint í efni

Ástralskir kúabændur stofna nýtt samvinnufélag

24.11.2017

Við sögðum frá því hér í síðustu viku að kanadíska afurðafélagið Saputo hefði keypt hið ástralska afurðafélag Murray Goulburn á miklu undirverði miðað við aðra bjóðendur í félagið og að úlfúð gætti meðal fyrrum félagsmanna Murray Goulburn vegna kaupanna. Nú hefur það svo gerst að nokkrir fyrrum félagsmannanna hafa tekið sig saman og stofnað nýtt samvinnufélag til þess að koma upp félagi á ný í eigu ástralskra kúabænda. Ríkisstjórn Ástralíu styður þetta framtak heilshugar og hefur þegar gefið loforð um að fjármagna hluta af stofnkostnaðinum með rúmlega milljarðs króna framlagi. Þessi upphæð kemur úr sérstökum sjóði sem ætlað er að byggja upp á landsbyggðinni og efla starfsemi í dreifbýli.

Hið nýja félag kallast Montain Milk Cooperative Ltd. og standa að stofnuninni fjögur kúabú nú í upphafi en ársframleiðsla þeirra er um 18 milljónir lítra. Í erlendum fréttamiðlum um stofnun félagsins hefur verið haft eftir stjórnarformanni félagsins, Stuart Crosthwaite, að markmið félagsins er að  færa afurðavinnsluna nær kúabændum landsins svo framtíð þeirra sé ekki ákvörðuð af stjórnendum sem búa hinum megin á hnettinum. Markmið félagsins er að vera tilbúið með drykkjarmjólk á markaðinn um mitt næsta ár/SS.