
Ástralskir kúabændur reiðir
16.11.2017
Það gekk mikið á í þarsíðustu viku í Ástralíu þegar stærsta afurðafélag landsins, Murray Goulburn, var selt með nokkrum hraði til kanadíska afurðarisans Saputo en fyrrnefnda félag hefur átt í verulegum fjárhagserfiðleikum undanfarið eins og við höfum áður greint frá hér á naut.is. Nokkuð margir aðilar höfðu áhuga á félaginu og því kom á óvart að forsvarsmenn félagsins seldu það nokkuð óvænt til Saputo fyrir 1,3 milljarða dollara.
Þetta er vissulega há upphæð en hún hefði getað verið töluvert hærri eða 1,7 milljarðar dollara ef hæsta tilboði hefði verið tekið og af þeim sökum hafa margir kúabændur látið í sér heyra enda eru 400 milljónir dollara hreint ekki lítil upphæð.
Enn hefur ekki verið útskýrt af hverju hæsta boði var ekki tekið en alls voru 5 tilboð hærri en það sem Saputo kom með. Erlendir fréttamiðlar telja að skýringin felist í því að þau boð sem voru hærri en það sem var frá Kanada hafi öll verið frá kínverskum fyrirtækjum og að hinir áströlsku forsvarsmenn Murray Goulburn hafi einfaldlega ekki viljað að félagið myndi enda sem eign Kínverja. Þá benda aðrir á að áströlsk stjórnvöld hefðu mögulega getað hafnað sölunni til Kínverja á forsendum stöðugt vaxandi umsvifa þeirra í Ástralíu, en ekki er talið að áströlsk yfirvöld hafi nokkuð á móti Saputo sem nú þegar er með starfsemi í landinu.
Eftir kaup Saputo á Murray Goulburn styrkir kanadíska afurðafélagið stöðu sína á heimsmarkaðinum sem eitt af 10 umsvifamestu mjólkurvinnslufyrirtæki heims en Saputo er með framleiðslu í bæði Kanada, Bandaríkjunum, Argentíu og Ástralíu/SS.