Ástralskir kúabændur í samkeppni við tré
28.10.2011
Í Ástralíu hafa nú verið settar nýjar styrktarreglur í landbúnaði sem eiga að leiða til kolefnisbindingar á búum. Bændur geta nú fengið töluvert háa styrki taki þeir land úr hefðbundinni landbúnaðarframleiðslu og planti skógi í það í staðinn. Alls er varið til þessa verkefnis einum milljarði ástralskra dollara eða um 115-120 milljörðum íslenskra króna en kolefnisbindingin sem af þessu hlýst nýtist Ástralíu sem viðbót við sinn samþykkta kolefniskvóta og er því hægt að selja til t.d. iðnfyrirtækja.
Af þessu skrefi hafa forsvarsmenn þarlendra bænda áhyggjur og óttast að bændur flykkist nú til þess að hætta í kjötframleiðslu og taki gott beitarland úr notkun. Slíkt gagnist ekki matvælaframleiðslu landsins né heimsins/SS.