
Ástralskir kúabændur í hagræðingaraðgerðum
20.06.2017
Ástralska samvinnufélagið Murray Goulburn, sem er stærsta afurðafélag Ástralíu og í eigu 2.200 þarlendra kúabænda, hefur á undanförnu þurft að endurskoða framleiðslumál sín í kjölfar minni innvigtunar mjólkur. Afurðastöðvaverð í Ástralíu er enn mun lægra en víða annarsstaðar og hefur það bitnað beint á innvigtuninni og því var stjórn félagsins ljóst að grípa þurfti til aðgerða. Þá hefur félagið markað sér stefnu í umhverfismálum og við skoðun á svokölluðu kolefnafótspori félagsins kom í ljós að hægt var að gera mun betur en þegar hafði verið gert. Stjórnin tók því þá sársaukafullu ákvörðun um að loka þremur vinnslustöðvum Murray Goulburn en ákvörðunin hefur áhrif á 360 starfsmenn.
Nú þegar í ár verður tveimur vinnslustöðvum lokað, annars vegar í Rochester og hins vegar í Kiewa en báðar þessar vinnslustöðvar eru í Viktoríufylki. Þá verður vinnslustöðinni í Edith Creek í Tasmaníu lokað á næsta ári. Alls er talið að lokun þessara þriggja vinnslustöðva muni skila félaginu 3,0-3,7 milljörðum íslenskra króna í nettó hagnað/SS.