Ástralskir kúabændur draga úr framleiðslu
25.07.2016
Það er ekki bara í Evrópu sem er mikil framleiðsla á mjólk um þessar mundir heldur einnig mun víðar í heiminum. Í Ástralíu hefur verið afar mikil offramleiðsla undanfarið og illa gengið að ná böndum á framleiðsluna. Afurðastöðvaverð hefur því lækkað verulega og nú eru farin að sjást áhrif þess á framleiðsluna.
Nú í vor dróst innvigtunin saman um 5,5% og er nú 12 mánaða framleiðsla mjólkur í Ástralíu 8,92 milljarðar lítra sem er 1,5% minni innvigtun en 12 mánuðina þar á undan. Sé horft til einstakra fylkja landsins hefur mestur samdráttur orðið í Tasmaníu og nam t.d. samdrátturinn þar í maí 13,4% miðað við maí í fyrra. Skýringin er þó að mestu afar erfið veðurfarsskilyrði til mjólkurframleiðslu nú í vor á því svæði. Af hinum fylkjunum fimm hefur orðið samdráttur í Victoriu, Suður-Ástralíu og Nýja Suður Wales. Í bæði Queensland og Vestur-Ástralíu hefur hins vegar orðið auknin í innvigtun undanfarið/SS.