Beint í efni

Ástralir stórauka eftirlit með útflutningi

11.10.2011

Fyrr á þessu ári bárust fregnir af afar slæmri meðferð á nautgripum í Indónesíu en dýraverndarsamtök náðu upptökum af því þegar naut voru barin mjög illa og jafnvel margskorin við slátrun. Hrottaleg meðferð nautgripanna leiddi til þess að ástralska stjórnin bannaði útflutning á lifandi gripum frá Ástralíu en árlega eru hundruðir þúsunda nautgripa fluttir lifandi á milli landanna og er markaðurinn sá lang mikilvægasti fyrir lífdýrasölu frá Ástralíu enda fer um 60% gripanna þangað.

 

Í kjölfar bannsins, sem var sett í byrjun júní, voru settar afar strangar reglur um dýravelferð sem gildi um sölu lífdýra til Indónesíu frá Ástralíu. Þannig er einungis heimilt að selja nautgripi til sláturhúsa í Indónesíu sem uppfylla sérstök skilyrði um dýravelferð svo dæmi sé tekið og þurfa þau sérstaka úttekt frá áströlskum yfirvöldum.

 

Nú hafa verið fluttir út frá Ástralíu um 60 þúsund nautgripir eftir hinum nýju reglum og virðist sem að lausn sé fundin í þessu máli. Ástralskir nautgripabændur eru eðlilega ánægðir með þessa lendingu málsins, enda skiptir markaðurinn í Indónesíu verulegu máli fyrir sölu lífdýra en árleg velta markaðarins nemur um fjörtíu milljörðum íslenskra króna. Útflutningurinn í ár verður þó langt frá því sem hann var í fyrra, enda uppfylla enn sem komið er afar fá sláturhús í Indónesíu hinar ströngu áströlsku kröfur/SS.

 

Hafi einhver geð í sér til þess að horfa á myndband sem sýnir hina slæmu meðferð nautgripanna má sjá nokkur slík á YouTube.