Beint í efni

Áskorun til Líflands!

13.08.2009

Hér fyrr í dag sendi Lífland frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt er 4% hækkun á kjarnfóðri. Hækkunin á að taka gildi í byrjun næstu viku. Eins og fram kemur í fréttatilkynningunni hafa ýmis hráefni lækkað talsvert á erlendum mörkuðum að undanförnu, greinargott yfirlit yfir þá þróun er t.d. að finna á heimasíðu International Grains Council, hér. Á síðunni kemur fram að frá því í lok maí hefur verð á maís lækkað um 17%, hveitiverð um 20% og bygg um 14%. Verð á soja hefur sveiflast talsvert og er nú um 2% hærra í dag en í lok maí.

Algengt er að hlutfall á hveiti, byggi og maís í kjarnfóðri sé samanlagt á bilinu 50-70%, soja er 10-20% í algengum blöndum. Þrátt fyrir að gengi krónu gagnvart evru hafi veikst um 6% síðan Lífland hækkaði síðast verð á kjarnfóðri, þann 18. maí sl., þá er ekki annað að sjá en að verðlækkun á erlendum mörkuðum vegi það upp og gott betur. Landssamband kúabænda telur að ekki séu tilefni til hækkunar kjarnfóðurs og skorar því á Lífland að hætta við fyrirhugaða verðhækkun mánudaginn 17. ágúst n.k.