Beint í efni

Áskorun til áburðarsala!

26.02.2010

Á stjórnarfundi Landssambands kúabænda sem haldinn var í gær, 25. febrúar 2010 var m.a. farið yfir áburðarmál. Í kjölfar þeirrar umræðu ákvað stjórn LK að senda frá sér svohljóðandi áskorun:

Stjórn Landssambands kúabænda skorar á áburðarsala sem enn hafa ekki birt verðskrá á áburði að gera það nú þegar. Ekki eru nema hálfur annar mánuður þar til að áburðardreifing getur hafist hjá bændum, þannig að svigrúm til ákvarðanatöku er senn á þrotum. Þessi seinagangur á birtingu áburðarverðs er sérstaklega athyglisverður í ljósi þess, að á heimasíðu Ríkiskaupa kemur fram að opnun tilboða vegna áburðarkaupa Landgræðslunnar og Vegagerðarinnar hafi farið fram þann 8. febrúar sl., fyrir tæpum 3 vikum. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að birta áburðarverð til bænda þegar í stað.

Áskorun þessi hefur verið send til hérlendra áburðarsala.

 

Fyrir hönd stjórnar Landssambands kúabænda,

Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri