Ásetningur nauta nánast eins á milli ára
05.07.2010
Ásetningur nauta fyrstu þrjá mánuði ársins, samkvæmt skýrsluhaldsupplýsingum frá Bændasamtökum Íslands, er nánast sá sami og hann var árin 2008 og 2009. Fyrstu þrjá mánuði ársins settu kúbaændur á 2.121 naut en árið 2009 2.112 og árið 2008 2.103. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru sveiflurnar vart greinanlegar. Á þessum tíma hefur verð
til kúabænda fyrir nautakjöt verið tiltölulega stöðugt, sem skýrir að hluta jafnan ásetning nauta. Önnur skýring er einfaldlega jöfn aðstöðunýting í fjósum landsins.
Eins og sjá má við skoðun myndarinnar (með því að smella á hana má sjá stærri upplausn), er ásetningur á naut alltaf minnstur í júlí og þar sem flestir slátra nautum við tveggja ára aldur, er viðbúið að minnst sé framboð nauta einmitt yfir há-sumartímann. Staða sem er vel þekkt.
Heildarásetningur síðustu 12 samanburðarhæfu mánuði var 1,5% meiri en fyrir sambærilegt tímabil árið á undan. Er þessi munur það lítill að erfitt er að draga ályktanir um hvert ásetningur stefnir í raun.
Athygli lesenda skal vakin á því tölurnar fyrir apríl og maí í ár (2010) eru of lágar þar sem allar ásetningsskýrslur eru ekki komnar í hús. Þessar tölur leiðréttast næst þegar þessar upplýsingar verða teknar saman, en það gera Bændasamtök Íslands fyrir LK á þriggja mánaða fresti. Af þeim sökum var í þessum samanburði horft á tímabilin til og með mars 2010.