Beint í efni

Arve vinsælasta yrkið í ár?

11.05.2005

Síðustu vikur hafa margir bændur verið að sá korni í akra landsins og líklega aldrei verið jafn mikið af opnu landi og einmitt nú. Nokkuð misjafnt er hvaða yrki af korni er notað, sem og hvort bændur sái tveggja-raða byggi eða sex-raða. Samkvæmt upplýsingum frá þremur stærstu sáðvörusölufyrirtækjunum

má telja líklegt að algengasta yrkið í ár sé Arve, sem er sex-raða bygg. Yrkið Olsok hefur einnig verið mikið tekið af sex raða byggi. Af tveggja raða byggi eru yrkin Filippa og Skeggla líklega algengust, og þá yrkið Saana.

 

Að sögn Jónatans Hermannssonar, jarðræktarfræðings hjá Landbúnaðarháskólanum, voru flutt til landsins í fyrra 9 yrki af byggi og líklega sami fjöldi í ár. Í fyrra hafi Arve verið vinsælasta yrkið.

 

Drög að nýjum Búnaðarlagasamningi liggja fyrir

Bændur fá stuðning til kornræktar samkvæmt Búnaðarlagasamningi og nemur upphæðin 35 þúsund krónum ef sáð er í amk. 2 hektara lands. Að sögn Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, liggja nú fyrir ný drög að Búnaðarlagasamningi sem landbúnaðar- og fjármálaráðherra eiga þó enn eftir að blessa. Enn liggi því ekki endanlega fyrir hvaða upphæð bændur muni fá í stuðning til kornræktar, en ljóst sé þó að hann muni ekki minnka frá því sem nú er. Vænta má frétta af gangi mála með frágang Búnaðarlagasamningsins á næstu dögum.

 

Umsóknarfrestur til að sækja um stuðning er til 1. júní nk.

Samkvæmt leiðbeiningum Bændasamtaka Íslands skulu bændur sem hyggjast fá stuðning vegna kornræktar láta ráðunaut vita um það fyrir 1. júní. Ef fleiri bú sá saman í land, verður hektarafjöldinn sem sáð er í að vera amk. tvöfaldur fjöldi búanna. Bændur geta látið viðkomandi ráðunauta vita með því að senda tölvupóst á eftirfarandi netföng:

 

Bændur á Suðurlandi og Skaftafellssýslum: kbj@bssl.is eða johannes@bssl.is

 

Bændur á Kjalarnesi og í Kjós: bsk@simnet.is

 

Bændur á Vesturlandi og Vestfjörðum: bv@bondi.is

 

Bændur á Ströndum og Húnavatnssýslum:  ahun@bondi.is

 

Bændur í Skagafirði: el@bondi.is

 

Bændur í Eyjafjarðar- og Þingeyjasýslum: ib@bugardur.is

 

Bændur í Múlasýslum: rih@bondi.is