Beint í efni

Ársuppgjör afurðaskýrslna í nautgriparæktinni 2011

25.01.2012

Niðurstöður afurðaskýrslna í nautgriparæktinni fyrir árið 2011 hafa nú birst á nautgriparæktarsíðum bondi.is og má skoða þær nánar hér. Fjöldi búa, skráðra í skýrsluhaldið, var í árslokin 598 og skýrsluskil fyrir desember hafa nú náð 98%.

Vegna þess að við áramót er gefinn tími til leiðréttinga og yfirferðar á útreikningum, eru tölurnar birtar síðar en þegar um er að ræða mánaðaruppgjör. Eftir síðustu áramót birtust tölurnar á sama tíma, ef til vill sólarhring fyrr.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi: Samtals 23.417,4 árskýr mjólkuðu að meðaltali 5.436 kg á árinu 2011. Hæsta meðalnytin eftir reiknaða árskú á árinu, var í Hraunkoti í Landbroti, sem nú telst til Skaftárhrepps, 8.340 kg, nær óbreytt frá nóvemberlokum. Næsthæstu meðalafurðirnar voru á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði 7.986 kg. Þriðja búið í röðinni var Kirkjulækur 2 í Fljótshlíð þar sem meðalnytin var 7.811 kg. Efsta búið er hið sama og í síðasta mánuði og þar munu fyrri met vera slegin, aðeins í Akbraut í Holtum hefur meðalnyt eftir árskú, á almanaksári, náð yfir 8.000 kg áður, en það gerðist árið 2008 og meðalnytin þar var þá 8.159 kg.

Nythæsta kýrin á árinu 2011 var Týra nr. 120 í Hraunkoti í Skaftárhreppi, nyt hennar á þeim tíma var 12.144 kg en hún var einnig í efsta sætinu á þessum lista í nóvember síðastliðnum. Önnur kýrin í röðinni yfir nythæstu kýrnar síðastliðið ár var Raketta nr. 382 á Hóli í Sæmundarhlíð sem mjólkaði 11.999 kg. Hin þriðja á þessum lista yfir árið 2011 var Auðhumla nr. 409 á Vöglum í Blönduhlíð í Skagafirði, en hún mjólkaði 11.848 kg.