Beint í efni

Ársskýrsla Arla Foods 2009 – mjög erfitt rekstrarár að baki

13.04.2010

Fyrir fáeinum vikum var ársskýrsla Arla Foods birt á heimasíðu fyrirtækisins. Það er skemmst frá því að segja að árið 2009 var rekstur fyrirtækisins mjög erfiður – orðið „brutalt“ er notað í því samhengi. Mjólkurverð til bænda lækkaði mikið framan af ári en hækkaði lítillega undir lok ársins. Það er mat forstjórans, Peder Tuborgh, að mjólkurverð til evrópskra bænda sé svo lágt að engin leið sé að búin geti lifað við það til framtíðar. Danski hluti heimamarkaðarins (fyrirtækið vinnur úr mjólk í Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi) myndaði 18,6% af tekjum félagsins á síðasta ári. Sú þróun, að neytendur færðu sig úr dýrari yfir í ódýrari vörur, var mjög skýr á danska markaðnum. Neyslan af magni til var svipuð milli ára, en verðið mun lægra.

Það endurspeglaðist sem fyrr segir í mjólkurverði til bænda. Það lækkaði 1. janúar 2009 um 31,4 danska aura og aftur 1. mars um 20 aura. Verðið lækkaði því um tæp 20% á fyrstu mánuðum ársins og hélst mjög lágt fram í október og nóvember, þegar það hækkaði samtals um 20 aura. Í árslok voru félagsmönnum greiddir 229,3 aurar pr. kg eða 55,70 ISK. Í dag var síðan tilkynnt að verðið muni hækka um 7,5 aura pr. kg (3,5%) frá og með 3. maí n.k. Orsökin er styrking dollars og punds og betra útlit á markaði með mjólkurduft.

 

Helstu tölur varðandi fyrirtækið eru eftirfarandi:

 

– Fjöldi eigenda: 3.838 danskir og 3.787 sænskir mjólkurframleiðendur.

– Fjöldi starfsmanna: 16.231

– Heildarvelta: 46,2 mia DKK (1.123 milljarðar ISK), af því eru 70% í Danmörku, Svíþjóð, Englandi og Finnlandi.

– Hagnaður: 971 milljón DKK (23 milljarðar ISK), hagnaður 2008 var 556 milljónir DKK.

– Innvegið mjólkurmagn: 8.660 milljónir kg, árið 2008 var magnið 8.243 milljónir kg.

 

Ársskýrslu Arla Foods má lesa í heild sinni hér