Beint í efni

Árssala nautakjöts á pari við fyrra ár

18.06.2011

Sala á nautakjöti í maí sl. jókst um 2,8% miðað við sama mánuð í fyrra, en þetta kemur fram í yfirliti Bændasamtaka Íslands. Á sama tíma varð einnig aukning í framleiðslunni eða um 1,4% en þess ber að geta að fleiri virkir dagar voru í maí í ár en í fyrra sem gerir samanburðinn erfiðan. Sé hinsvegar horft til lengri tíma, síðustu þriggja mánaða, nemur samdráttur í framleiðslu 0,5% og í sölu um 1,4% miðað við árið 2010.

 

Heildarframleiðslan sl. 12 mánuði var 3.817 tonn af 26.533 tonna framleiðslu kjöts í það heila og er hlutdeild nautakjötsins því 14,4% í framleiðslunni. Þess má þó geta að inn í heildartölunum eru bráðabirgðaupplýsingar um framleiðslu svínakjöts í mánuðinum.

 

Alls nam sala nautgripakjöts í mánuðinum 335 tonnum og sl. 12 mánuði 3.829 tonnum og er örlítið betri árssala og mánuðina 12 þar á undan (0,1%). Horft til sundurliðunar á sölu nautgripakjöts í mánuðinum var sem fyrr mest sala í ungnautakjöti eða 198 tonn og á 12 mánaða grunni nemur ungnautakjötssalan 2.166 tonnum og sala á kýrkjöti 1.385 tonnum.

 

Sé litið til annarra kjöttegunda kemur í ljós að heildarsalan hefur dregist saman sl. 12 mánuði um 1,1% og var eingöngu framganga í sölu á dilkum (1,8%) og nautakjöti eins og að framan greinir. Aðrar kjöttegundir gefa áfram eftir. Þrátt fyrir framangreint ber alifuglakjöt enn höfuð og herðar yfir aðrar kjöttegundir með árssölu upp á 6.955 tonn (29,5% hlutdeild á markaði) en þar á eftir kemur kindakjöt með 6.205 tonn og þá svínakjöt með 6.047 tonn/SS.