Beint í efni

Ársfundur NMSM 2009

30.11.2009

Ársfundur NMSM 2009 var haldinn dagana 10.-12. júní í Lund, Svíþjóð, en NMSM er samstarfsvettvangur varðandi mjólkurgæðamál afurðastöðva á Norðurlöndunum. Markmið samstarfsins er að leita leiða til þess að bæta mjólkurframleiðsluna á Norðurlöndunum, með sérstaka áherslu á heilbrigði dýra, mjaltatækni, fóður og mjólkurgæði með tilheyrandi gæðakerfum. Deila reynslu og faglegum upplýsingum, safna gögnum og upplýsingum um þróun og kröfur varðandi mjólk og mjólkurframleiðslu með sérstaka áherslu á frumframleiðsluna. Samstarfsvettvangurinn á að fylgjast með þróun mála hjá IDF (International Dairy Federation) og annarra skildra stofnana til þess að hámarka nýtingu þeirrar vinnu sem unnin er af aðilum utan Norðurlandanna.

Innan NMSM eru fjórar faglegar nefndir:
 
Nefnd um heilbrigði dýra (NMSMd)
Nefnd um mjólkurgæði (NMSMm)
Nefnd um mjaltatækni (NMSMt)
Nefnd um fóður (ekki starfandi nú um stundir)

Undirritaður situr sem fulltrúi Íslands, í umboði Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM), í NMSM-teknikgruppen, en sá hópur fjallar sérstaklega um tækniatriði sem tengjast mjólk og mjöltum.

Helstu verkefni þessa tæknihóps er að fylgjast með þróun og vinna að úrbótum eftir föngum á:
 
• Mjaltatækinu með öllu tilheyrandi
• Mjaltaþjónum
• Mjólkurtankinum
• Mjólkurmælum
• Þvottavélum og þvottaefnum
• Þrifum á mjaltatækjum
• Góðum mjöltum
• Mjaltaafköstum
• Vinnuumhverfi og vinnuvernd við mjaltir
• Áhrifum mjaltatækninnar á mjólkurgæði
• Mjólkurhúshönnun
• Nýjungum innan mjaltatækni
 

Vinna við framannefnt fer fram á fundum og í góðu samstarfi við þau fyrirtæki á Norðurlöndunum sem framleiða mjaltatæki og/eða mjólkurtanka. Frá síðasta ársfundi hefur NMSMt haldið 3 formlega fundi. Undanfarin ár hefur undirritaður aðeins tekið þátt í ársfundum til þess að halda niðri kostnaði við samstarfið og hefur þátttaka undirritaðs í þessu samstarfi fyrst og fremst byggst á því að taka þátt í símafundum og umræðum með tölvubréfum.

Þátttaka á árlegum ársfundi var nú, eins og áður, kostuð af þeim fyrirtækjum sem flytja inn mjaltatæki og þeim stofnunum hérlendis sem málið varðar þ.e. Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Landssambandi kúabænda. Eins og undanfarin ár hef ég jafnframt fengið heimild LbhÍ til þess að sinna starfinu í vinnutíma, auk þess sem LbhÍ lagði jafnframt til útprentun þessarar skýrslu. Þakka ég öllum fyrir gott og farsælt samstarf.

Meðfylgjandi skýrsla er byggð upp af stuttum athugasemdum varðandi einstaka erindi sem voru flutt á fundinum. Að þessu sinni gafst fundarmönnum ekki færi á að fá frumrit framlagðra erinda en þess í stað var gefin út vegleg skýrsla, sem hér fylgir einnig með, með upplýsingum frá bæði aðalfundi NMSM og fagfundum.

 

Ágrip af erindum á ársfundinum er að finna hér.

 

Ársskýrslu NMSM er að finna hér (á skandinavísku).

 

Hvanneyri í nóvember 2009, Snorri Sigurðsson