Ársfundur NMSM 2008
18.03.2009
Ársfundur NMSM (Nordiske meieriorganisasjoners samarbeidsutvalg for mjølkekvalitet) fór fram í Molde í Noregi 11.-13. júní 2008. NMSM er samstarfsvettvangur varðandi mjólkurgæðamál afurðastöðva á Norðurlöndunum. Markmið samstarfsins er að leita leiða til að bæta mjólkurframleiðsluna á Norðurlöndunum, með sérstaka áherslu á heilbrigði dýra, mjaltatækni, fóður- og mjólkurgæði með tilheyrandi gæðakerfum. Einnig að deila reynslu og faglegum upplýsingum, safna gögnum og upplýsingum um þróun og kröfur varðandi mjólk og mjólkurframleiðslu, með sérstaka áherslu á frumframleiðsluna. Samstarfsvettvangurinn á að fylgjast með þróun mála hjá IDF (International Dairy Federation) og annarra skyldra stofnana til að hámarka nýtingu þeirrar vinnu sem unnin er af aðilum utan Norðurlandanna.
Innan NMSM eru fjórar faglegar nefndir:
- Nefnd um heilbrigði dýra (NMSMd)
- Nefnd um mjaltatækni (NMSMt)
- Nefnd um mjólkurgæði (NMSMm)
- Nefnd um fóður (ekki starfandi nú um stundir)
Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri búrekstrar Lbhí situr sem fulltrúi samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði í tæknihópnum (nefnd 2). Veitti LK honum stuðning til farar á ársfundinn. Hér er að finna glærur með samantekt á starfi hópsins á liðnu starfsári. Þar er einnig að finna áhugaverðar tölur yfir þróun og útbreiðslu mjaltaþjóna, bæði á Norðurlöndunum, sem og á heimsvísu.