Beint í efni

Ársfundur NMSM

11.06.2007

Nýlega barst LK skýrsla vegna ársfundar NMSM (Nordiske Meieriorganisasjoners Samarbeidsudvalg for Mjølkekvalitetsarbeid, samstarf mjólkuriðnaðarins á Norðurlöndum um mjólkurgæðamál) sem haldinn var í Tampere á síðasta ári. Fyrir hönd Íslands sóttu fundinn þeir Jón Kr. Baldursson, þáverandi starfsmaður SAM og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri Búrekstrarsviðs LBHÍ. Skýrslan er tekin saman af þeim síðarnefnda, hana er að finna í heild sinni hér, en hér neðar er ágrip úr henni.

Hreinar kýr

Fundurinn stóð yfir í 3 daga og á fyrsta degi var „hreinar kýr“ megin umfjöllunarefnið. Farið var yfir finnska rannsókn á nýlegum lausagöngufjósum þar í landi og hreinleika kúnna í þeim. Meðal helstu niðurstaðna voru að víða höfðu verið gerð mistök við frágang á heilum gólfum, og voru kýrnar lang skítugastar við þær aðstæður. Rangt stillt herðakambsslá hafði einnig áhrif á hreinleikann, eftir því sem hún var neðar voru kýrna óhreinni. Var það rakið til þess að þá væri aðstaða kúnna verri á legubásnum og þær dveldu lengur á göngusvæði. Í framhaldi af þessum upplýsingum spunnust umræður um hvort hægt væri að koma á samræmdum skala um mat á hreinleika, þannig að auðveldara væri að bera saman niðurstöður milli landa.

 

Loftræsting í lausagöngufjósum

Snorri Sigurðsson fjallaði um hönnun loftræstikerfa fyrir lausagöngufjós og helstu vandamál sem komið hafa upp varðandi loftræstingu lausagöngufjósa á Norðurlöndunum. Stærsti vandinn er sá að oftast sjá sölufyrirtækin um að reikna út loftræstikerfin en ekki sjálfstæðir ráðgjafar. Þetta hefur leitt til þess að margir bændur eru bundnir af fyrirfram ákveðinni hönnun, jafnvel áður en fyrsta teikning af fjósi liggur fyrir. Ennfremur kom skýrt fram á fundinum að þekking á loftræstingu, útreikningum á loftræstingu og fjölbreytileika í loftræstingalausnum er afar lítil meðal ráðunauta á Norðurlöndunum.

 

Eru „dýrustu“ þjónustusamningarnir þeir ódýrustu í raun?

Kaj Nymannen frá Finnlandi fór yfir kostnað við kaup á mjaltaþjónum og lagði fram yfirlit frá Danmörku um þjónustusamninga fyrir mjaltaþjóna og svo raunkostnað bænda. Í ljós kom að þar sem um minnsta þjónustu er að ræða, sk. lágmarkssamning, höfðu þeir bændur sem hafa slíkan samning mestan heildarkostnað þar sem varahlutir eru ekki innifaldir í þjónustunni. Þeir sem taka hinsvegar hæsta þjónustustig þar sem allar heimsóknir og varahlutir eru innifaldir, greiða í raun minnst þegar upp er staðið. Jafnframt voru bornar saman viðhalds og þjónustutölur fyrir mjaltabása með svipuð afköst og reikna má tveimur mjaltaþjónum. Er sá kostnaður nærri fjórfalt lægri en hjá bændum með tvo mjaltaþjóna.