Beint í efni

Ársfundur IDF – verðhækkanir á mjólk varanlegar

08.10.2007

Ársfundur IDF – Alþjóðasamtaka mjólkuriðnaðarins – var haldinn í Dublin á Írlandi í síðustu viku. Eitt megin umfjöllunarefni fundarins var hin gríðarlega hækkun sem orðið hefur á verði mjólkurafurða það sem af er þessu ári. Það er mat samtakanna að þær breytingar séu komnar til að vera. Þrátt fyrir að aukning í eftirspurn eftir mjólkurvörum hafi verið meiri en aukning framleiðslunnar um nokkurra ára skeið, þá hafa miklar birgðir leitt til þess að verðhækkanir hafa verið óverulegar.

Þegar birgðageymslur voru tæmdar, varð bilið á milli framleiðslu og eftirspurnar augljóst og leiddi það til áðurnefndra verðhækkana sem ekki sér fyrir endann á. Spurningin er því hvaða áhrif þetta hefur til lengri tíma litið, hvaða áhrif verðhækkanir hafa á aukningu framleiðslunnar og hvort eftirspurnin eykst með sama hraða þegar verðið helst hátt.

 

Sem dæmi um þær breytingar sem orðið hafa á mjólkurframleiðslunni á heimsvísu, má nefna að á ársfundi IDF í Shanghai 2006 sagði einn af virtari fræðimönnum á þessu sviði, Torsten Hemme, að í framtíðinni yrði mjólkin framleidd þar sem framleiðslukostnaðurinn væri lægstur. Á fundinum í síðustu viku sló hann því fram – í gamni og alvöru – að mjólkin yrði framleidd þar sem bændum væri greitt amk 50 USD/100 kg mjólkur! 

 

Samtökin spá því að aukning mjólkurframleiðslu í ár verði aðeins 9 milljónir tonna (1,4%) þannig að hún verði 655 milljónir tonna.  Í fyrra jókst hún um 12,5 milljónir tonna, þannig að töluvert hægir á vexti framleiðslunnar á heimsvísu.