Beint í efni

Ársfundur Dansk kvæg

26.02.2007

Ársfundur samtaka danskra kúabænda (Dansk kvæg, DK) stendur nú yfir í Herning á Jótlandi. Fundinn sækja um 1000 manns, bændur, ráðgjafar, vísindamenn og starfsmenn fyrirtækja sem tengjast nautgriparæktinni. Fundurinn var settur í morgun og var dagskrá frá 10-21.30. Verður fundinum fram haldið á morgun.

Í upphafi fundar röktu formaður og framkvæmdastjóri samtakanna stöðu nautgriparæktarinnar í Danmörku. Uppgjör fyrstu búreikninga fyrir árið 2006 sýna að árið var greininni mjög hagfellt, þrátt fyrir Múhameðs-krísuna sem svo er nefnd, sem kostaði mjólkurframleiðendurna tæpa fimm milljarða ísl. króna. Ástæða góðrar afkomu er rakin til að hinar gríðarlegu fjárfestingar síðasta áratugar eru farnar að skila góðum arði og að uppskera gróffóðurs síðasta sumars var með allra besta móti, enda sumarið það hlýjasta sem sögur fara af. Þróunin í danskri mjólkurframleiðslu er geysihröð og er ekkert lát þar á. Þegar kvótakerfið var tekið upp í ESB árið 1984 voru mjólkurframleiðendur í Danmörku 32.000. Í dag eru þeir um 5.500 og framleiða tæplega 900.000 lítra að meðaltali. Stærsta búið er bú Kurt Jensen í Arden, það er með 1.300 kýr og framleiðir 9,6 milljónir lítra á ári. Rekstrarhorfur yfirstandandi árs eru ekki eins góðar og síðasta árs, er þar hækkandi vöxtum mest um að kenna en dönsku kúabúin eru mjög skuldsett. Rekja DK um 2/3 af minnkun hagnaðar til þessa þáttar. Gert er ráð fyrir óbreyttu verði á mjólk og kjöti, en kjötverð hefur hækkað síðustu misseri. Núverandi mjólkurverð frá afurðastöð er u.þ.b. 2,12 DKK. Þá er gert ráð fyrir lítils háttar hækkun á aðföngum, t.d. fóðri. Sem fyrr er mikill munur á afkomu einstakra búa, á búum með 80-120 kýr munar 880.000 DKK á besta og lélegasta fimmtungi búanna. Ný fjós sem eru á teikniborðinu um þessar mundir eru að jafnaði hönnuð fyrir 250-500 kýr. Í smærri fjósunum verða mjaltaþjónar en í þeim stærri verður mjólkað í dálkabásum og hringekjum. DK styðja eindregið nýjan WTO samning og vona að hann taki gildi sem fyrst. Dönsk mjólkurframleiðsla er nú orðin nær óháð útflutningsbótum, þær nema um 3 dönskum aurum á lítra. Til samanburðar voru þær 65 danskir aurar á lítra árið 1987. Það er eindreginn vilji DK að kvótakerfi ESB verði lagt af árið 2015. Til að auðvelda aðlögun er það stefna samtakanna að kvóti hvers lands verið aukinn árlega og síðan felldur niður 31. mars 2015. Þannig sitja allir við sama borð, þó ljóst sé að munur verði á nýtingu hvers lands á kvótanum. DK átelur að ESB sé ekki komið fram með aðgerðaáætlun þessa efnis og óttast að eftir því þurfi að bíða, í versta falli til 2010. Á sviði ráðgjafar leggja samtökin ríka áherslu á að bændum standi til boða heildstæð ráðgjöf, sem tekur búið fyrir í heild en ekki bara einstaka hluta búrekstrarins. Stór þáttur er samvinna ráðgjafa á sviði kynbóta, framleiðslu, fjármögnunar og dýraheilbrigðis. Dýraheilbrigði er mjög í kastljósi Dansk kvæg. Eitt af stærstu verkefnunum er útrýming Salmonella Dublin og er stefnt að því markmiði verði náð á næstu 5 árum. Sökum þess að sjúkdómurinn Blue Tongue hefur gert vart við sig í Hollandi og Þýskalandi ráða samtökin bændum eindregið frá því að flytja inn lifandi dýr. Hvað varðar dýravelferð er sjónum helst beint að kúadauða sem er nú 4% og kálfadauða sem er 7,5%. Hvort tveggja telja samtökin allt of hátt og er markvisst gripið inn í á þeim búum þar sem vandamálið er alvarlegast. Eftirlitsiðnaðurinn hefur blómstrað mjög á undanförnum árum og er ósjaldan talað um eftirlitsofstæki eða „kontroltyranni“. Það má til sanns vegar færa þegar búin fá eftirlitsheimsókn meira en einu sinni í mánuði og efnisatriði sem þarf að uppfylla eru 113 talsins. Ríkisstjórnin hefur sett markmið um að minnka skriffinsku á þessu sviði um fjórðung og fylgja DK því fast eftir að þau markmið náist. Í dag mega ekki vera fleiri en 500 dýraeiningar á hverri bújörð (1 jersey mjólkurkýr er t.d. ein dýraeining, ein svartskjöldótt er 1,15) af heilbrigðisástæðum. Þær ástæður tekur DK ekki gildar lengur, auðvelt sé að fyrirbyggja sjúkdóma á smáum sem stórum búum. Stefnt er að því að taka upp rafræn eyrnamerki í nautgripi 1. janúar 2008. Það eykur öryggi í allri skráningu til muna og eykur möguleika á rekjanleika í öllu framleiðsluferlinu, frá haga til maga. Samtök danskra kúabænda meta horfur á heimsmarkaði með afurðir nautgriparæktarinnar jákvæðar. Eftirspurn fer vaxandi og verð fer hækkandi. Milliríkjaverslun fer hlutfallslega minnkandi og hærra hlutfall framleiðslunnar fer fram nálægt neyslustað. Megin straumar á þessu sviði eru eftirfarandi í mjólkinni:

  • Í Kína, Indlandi og USA er mikil aukning í framleiðslu en lítill útflutningur.
  • Argentína er orðið útflutningsland, sömuleiðis Úkraína og Brasilía
  • Hlutdeild ESB af heimsmarkaði fer minnkandi – neysla innan þess fer minnkandi
  • Útflutningur Kanada, Noregs og Sviss verður lítill sem enginn í framtíðinni, e.t.v. dýrar sylluvörur.

Möguleikar til aukinnar framleiðslu eru talsverðir í Danmörku og Hollandi, enda hefur fjárfesting þar verið mikil. Aðstæður eru einnig hagstæðar í Svíþjóð og Bretlandi en viljinn til að framleiða er minni þar, sérstaklega í Bretlandi þar sem verðið þar er komið niður úr öllu valdi. Aukning í framleiðslu á bio-diesel mun hafa mikil áhrif á mjólkurframleiðsluna í Þýskalandi, þar sem sú framleiðsla keppir um ræktunarlandið og býður upp á betri afkomu.

 

Hvað nautakjötið varðar eru horfur á að verslun á heimsmarkaði muni aukast mjög. Eftirspurn fer vaxandi, mest eftir hvítu kjöti en einnig nautakjöti. Mest verður aukning eftirspurnar í löndum eins og Kína, Japan, Kóreu og Rússlandi. Aukning verður í útflutningi frá Norður- og Suður-Ameríku. Dönsk nautakjötsframleiðsla mun einbeita sér að heimamarkaði í framtíðinni. Stuðningur við þá framleiðslu fer minnkandi. Að lokum lagði Peder Philipp áherslu á að framtíð nautgriparæktarinnar væri auknum mæli undir henni sjálfri komin. Áhersla skal lögð á eftirfarandi atriði:

  • Þróun markaða
  • Vaxtastig
  • Framleiðslukostnað
  • Vinnuafl/tæknistig
  • Framtíð kvótakerfisins
  • Ímynd framleiðslunnar og umtal

Allt þetta skapar grundvöll að því sem allt snýst um, nefnilega það að kúabændur og fjölskyldur þeirra búi við góð lífskjör.