Beint í efni

Arla veðjar á Rússland

25.01.2012

Vart hefur farið fram hjá nokkrum lesanda naut.is þær miklu hræringar sem eiga sér stað meðal afurðastöðvanna í Evrópu. Þar hafa verið sameiningar og uppkaup í nærri því hverri viku undanfarið og alltaf eitthvað að gerast. Nú berast enn ein tíðindin og að þessu sinni frá stórfyrirtækinu Arla. Félagið hefur á undanförnum árum flutt mikið af mjólkurvörum út til Rússlands og nú hefur verði ákveðið að koma upp afurðavinnslu þar í landi, nánar tiltekið í bænum Kalacheevsky í suð-vestur Rússlandi.

 

Í Kalacheevsky verður komið upp stórri gulostaframleiðslu en fyrir er afurðastöð í bænum sem verður breytt í þessa ostavinnslu Arla. Samið hefur verið við eiganda afurðastöðvarinnar, Molvest, að sjá um söfnun mjólkur á svæðinu en Molvest er þriðja stærsta afurðafélagið í Rússlandi. Ætluð ostaframleiðsla árið 2014 eru 6 þúsund tonn og er ráðgert að 10% aukning verði á framleiðslunni fyrstu árin. Um tvöföldun á ostasölu Arla er að ræða gangi framangreind plön eftir, en heildarsala félagsins í Rússlandi árið 2011 nam um 11 milljörðum króna. Stærstu samkeppnisaðilar Arla í Rússlandi eru Pepsico og Danone/SS.