Beint í efni

Arla tapaði hraustlega í Finnlandi

18.03.2013

Líkt og naut.is hefur greint frá fékk Valio í Finnlandi mikla sekt frá samkeppnisyfirvöldum vegna þess að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína gagnvart öðrum afurðastöðvum í landinu. Arla, sem er stærsta afurðafélagið í Svíþjóð, Bretlandi og Danmörku, er frekar lítið afurðafélag í Finnlandi og hefur rekstur þess gengið afar illa í landinu til þessa. Alls nam tap Arla Ingman, en það heitir dótturfélagið sem Arla starfrækir í Finnlandi, heilum 2,5 milljörðum íslenskra króna á síðasta ári, sem er þó nærri helmingi minna tap en varð árið 2011.

 

Forsvarsmenn félagsins veltu því fyrir sér að draga félagið að fullu út af finnska markaðinum vegna gríðarlegra undirboða Valio, en eftir að Valio var dæmt til sektargreiðslu sem nam heilum 12 milljörðum íslenskra króna, hefur staða annarra afurðafélaga á markaðinum heldur skánað. Fram kemur í ársreikningi Arla Ingman að velta félagsins jókst um 7,2% á árinu og endaði í 343 milljónum evra sem svarar til um 56,3 milljörðum íslenskra króna. Forsvarsmenn Arla Ingmann telja bjart framundan í rekstri félagsins enda varð Valio, samkvæmt úrskurði samkeppnisstofnunar, að hækka útsöluverð mjólkur um 30% þann 1. febrúar sl. Sú hækkun gerði það að verkum að aðrar afurðastöðvar eiga nú möguleika á hinum áhugaverða finnska markaði/SS.