Beint í efni

Arla stækkar enn

23.05.2012

Í gær var haldinn blaðamannafundur í höfuðstöðvum Arla í Árósum þar sem kynnt voru samrunaáform Arla, Milk Link í Bretlandi og MUH í Þýskalandi. Þetta eru allt samvinnufélög kúabænda í löndunum þremur, auk Svíþjóðar, Belgíu og Lúxemborg. Samningar liggja fyrir á milli félaganna en fulltrúaráðsfundir í lok júní taka endanlega ákvörðun um samrunann.

 

Ef samruninn verður samþykktur verður til gríðarlega sterkt afurðafélag sem mun heita áfram Arla og verða með höfuðstöðarnar í Danmörku. Fjöldi eigenda verður 12.300 en í dag eru hjá Arla 8.024 innleggjendur svo um verulega aukningu er að ræða. Heildarmagn innveginnar mjólkur eykst um 25% og fer í 12 milljarða lítra árlega og er áætluð velta samstæðunnar á næsta ári 70 milljarðar danskra króna eða um 1.530 milljarðar íslenskra króna.

 

Arla er þegar með starfsemi í bæði Þýskalandi og Bretlandi og mun staða félagsins breytast mikið eftir samrunann. Í dag er Milk Link fjórða stærsta afurðafélagið í Bretlandi og MUH það áttunda stærsta í Þýskalandi, en eftir samrunann verður Arla stærsta afurðafélagið í Bretlandi og það þriðja stærsta í Þýskalandi.

 

Fulltrúar bænda í löndunum hafa tekið þessum áformum afar vel og er sérstaklega jákvætt viðhorf forsvarsmanna bænda í Bretlandi. Þar er litið svo á að loks sé valdið aftur að færast til bænda, en eins og kunnugt er hafa bændur þar í landi búið við mikið harðræði sterkra verslunarkeðja sem hafa stýrt afurðaverðinu nokkuð að eigin geðþótta.

 

Fram kom á blaðamannafundinum að forsvarsmenn Arla telja frekari samruna framundan meðal samvinnufélaga kúabænda í Evrópu/SS.