
Arla: Sjálfbær mjólk í verslanir !
02.04.2019
Við sögðum frá því í síðasta mánuði að afurðafélagið Arla stefnir nú að því að verða að fullu sjálfbært á næstu 30 árum og ekki síðar en árið 2050. Það verða þó fljótlega stigin fyrstu skrefin á þessari vegferð en brátt mun neytendum í Danmörku og Svíþjóð standa til boða að kaupa drykkjarmjólk sem hefur verið vottuð sjálfbær! Neytendur í þessum löndum eru taldir tilbúnir til þess að stíga skrefið og borga verulega meira fyrir mjólk sem er vottuð með þessum hætti.
Þess má geta að hvergi í heiminum er hlutfall lífræns vottaðra matvæla hærra en í Danmörku og í Svíþjóð hefur orðið mikil neyslubreyting í átt að matvælum sem ekki innihalda dýraprótein. Markaðssérfræðingar telja að hluta af þessari þróun í þessum löndum megi rekja til umhverfissjónarmiða og því verður þessi tilraun með vottaða sjálfbæra mjólk gerð í Danmörku og Svíþjóð.
Nánari upplýsingar liggja ekki fyrir í dag um það hvernig þetta verður í raun framkvæmt, hvernig mjólkin verður kolefnisjöfnuð né heldur á hvaða verði hún verður seld/SS.