Beint í efni

Arla og DMK í samstarf

01.02.2018

Afurðarisarnir Arla og DMK GROUP, sem bæði eru samvinnufélög og í eigu 20 þúsund kúabænda í 7 löndum í Norður-Evrópu, hafa nú gert með sér áhugavert samkomulag um aukið samstarf og samvinnu. Í því felst að DMK GROUP, sem er stærsta afurðafélag Þýskalands, mun sjá um að framleiða mozzarella ost sem Arla mun svo sjá um að markaðssetja og selja. Um afar umfangsmikið samstarf er að ræða en DMK GROUP mun árlega framleiða 35 þúsund tonn af ostinum í afurðastöð sinni í Nordhackstedt í Norður-Þýskalandi. Arla er þegar eitt allra stærsta afurðafélag í heimi þegar horft er til framleiðslu á mozzarella osti og með þessum samningi tryggir félagið sig enn frekar á þessu sviði og getur sett aukinn kraft í markaðssetninguna.

Samhliða þessu aukna samstarfi félaganna tveggja varðandi ostinn, þá munu félögin nýta mysuna einnig með sameiginlegum hætti en hún verður nýtt af fyrirtækinu ArNoCo sem er að jöfnu í eigu Arla og DMK. ArNoCo mun framleiða mysuprótein og mjólkursykur fyrir markaðina í Danmörku og Þýskalandi/SS.