Beint í efni

Arla nú einnig með skyr

16.04.2012

Þessa dagana er Arla að setja mikinn kraft í markaðssókn með nýjung sína, danskt skyr, á hinum danska markaði. Skyr frá Arla er markaðssett undir merkjum Karolines køkken sem er sérvörulína Arla. Á heimasíðu félagsins er vísað í uppruna skyrsins og talað þar um rúmlega 1.000 ára íslenska sögu þessarar mjólkurafurðar. Skyrið frá Arla er nýjung frá þessu stóra félagi og er „þróað út frá íslenskum hefðum“ segir á heimasíðu Arla.

 

Þess má geta að skyr hefur verið framleitt í Danmörku áður og þá í samvinnu íslenska mjólkuriðnaðarins og Thise mejeri sem er lítil afurðastöð sem hefur sérstaklega lagt áherslu á lífrænar afurðir. Thise hefur þó selt sínar vörur í samkeppni við Arla í hinum dýrari verslunum. Í ljósi þess að Arla er með yfirburðastöðu á markaðinum verður afar fróðlegt að fylgjast með gengi hins „íslenska“ skyrs og þess danska á næstu misserum/SS.