
Arla með „skyr“ fyrir kínverska markaðinn
20.04.2018
Undanfarin ár hefur neysla á jógúrti í Kína stóraukist og hefur árleg neysluaukning verið um 15%. Nýleg neyslukönnun afurðafélagsins Arla í 6 stórborgum í Kína bendir til að svo til allir íbúar neyta jógúrts vikulega og nú hefur félagið sett kraft í að kynna próteinríkar vörur í þessum borgum. Það er dótturfyrirtæki Arla, Arla Foods Ingrediens, sem sér um þetta verkefni.
Fyrirtækið hefur þróað sérstaka jógúrt sem er með 6% prótein og 1,5% fitu og er þetta jógúrt fyrsta sinnar tegundar í Kína, þ.e. með hátt innihald af próteini. Þá er bragðbæting jógúrtsins breytileg eftir borgunum en smekkur Kínverja er gjörólíkur á milli borga og landhluta og því ekki hægt að selja sömu vöru með sama bragði í öllum hlutum Kína.
Arla Foods Ingrediens hefur kallað hið nýja jógúrt „skyr“ en aðferðin við framleiðsluna byggir á íblöndun gerla í mjólkina, sem gerir það að verkum að öll mjólkin nýtist til framleiðslunnar og myndast því engin mysa eins og við hefðbundna skyrgerð segir í frétt Dairy reporter um málið/SS.